Erlent

Til­kynnt um and­lát Noregs­konungs fyrir mis­tök

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Haraldur er í fullu fjöri, líkt og hann var þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heimsótti Noreg.
Haraldur er í fullu fjöri, líkt og hann var þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heimsótti Noreg. Vísir

Norska fréttastofan Norsk Telegrambyrå (NTB) sendi fyrir mistök fréttaskeyti á alla helstu fjölmiðla Noregs þess efnis að Haraldur Noregskonungur væri látinn. Þremur mínútum seinna var fréttaskeytið dregið til baka.



„Sorg ríkir í Noregi. Haraldur fimmti Noregskonungur er látinn, xx að aldri. Konungurinn lést xxxx (dagur/dagsetning) (á heimili, spítala eða þvíumlíkt) kl. xxx“



Svo hljóðaði fréttaskeytið en NTB þjónustar allar helstu fréttastofur Noregs. Skeytið var sent til fjölmiðla klukkan 12.06 að norskum tíma en þremur mínútum síðar barst nýtt skeyti þar sem fregnir af andláti Noregskonungs voru dregnar til baka.



„Þetta voru mistök og auðvitað átti þetta ekki að fara út,“ segir Ole Kristian Bjellaanes, ritstjóri NTB, í samtali við NRK. „Þetta voru líklega tæknileg mistök en ég get ekki sagt það með vissu.“



Unnið er nú að því að komast að því hvað nákvæmlega gerðist og hefur Bjellaanes beðist afsökunar fyrir hönd NTB. Alþekkt er að fréttastofur hafi tilbúin texta til að birta þegar fregnir berast af andláti opinberra persóna á borð við kóngafólk.



Í frétt NRK kemur einnig fram að Haraldur sé í fantaformi, að sögn talsmanns norsku konungshallarinnar. Er Haraldur staddur í veiði, í fullu fjöri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×