Viðskipti innlent

Þjóðhagsspá Íslandsbanka 2017: Hápunkti hagsveiflunnar náð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Miklar framkvæmdir standa yfir í miðbæ Reykjavíkur en krönum hefur fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár til marks um hagvöxtinn sem Íslandsbanki telur að hafi náð hámarki í fyrra.
Miklar framkvæmdir standa yfir í miðbæ Reykjavíkur en krönum hefur fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár til marks um hagvöxtinn sem Íslandsbanki telur að hafi náð hámarki í fyrra. Vísir/Vilhelm
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að talsvert muni hægja á hagvexti á komandi misserum. Hann verði 4,5% í ár en 2,8% á næsta ári. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Þjóðhagsspá bankans í ár sem kynnt var á fjármálaþingi bankans á Nordica í hádeginu í dag.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, kynnti spána á fundinum. Talið er að hagvöxturinn hafi náð hámarki í fyrra þegar hann var 7,4%.

„Vöxturinn hefur hvílt á hratt vaxandi ferðaþjónustu, aukinni fjárfestingu í þann geira sem og almennt meðal atvinnuvega, vaxandi kaupmætti heimila og farsælli lausn á þeim vandamálum sem fall meginhluta fjármálakerfisins skapaði í lok síðasta áratugar.“

Bankinn spáir því að verðbólga muni fara yfir markmið Seðlabankans á næsta ári, verði 1,9% í ár, 3,0% árið 2018 og 2,8% árið 2019. Þá muni hægja á vexti kaupmáttar launa sem verði 5,0% í ár og 2,9% á næsta ári.Heimilin í landinu munu taka við hagvaxtarboltanum að mati greiningardeildarinnar. 

 

Aðalatriðin úr spá Íslandsbanka sem afhent var á fjármálaþingi bankans í hádeginu.
Vöxtur einkaneyslu nái hámarki í ár og verði 8,0% en minnki á næsta ári og verði 5,0%. Þá verði áframhaldandi viðskiptaafgangur drifinn af vexti ferðaþjónustunnar sem muni nema 4,8% af VLF (vergri landsframleiðslu) í ár en minnki svo í 3,9% á næsta ári.

Spáð er að 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á árinu 2017 sem jafngildir um 30% fjölgun milli ára. Ferðaþjónustan mun að mati bankans skila um 45% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins í ár, samanborið við 39% í fyrra. Til samanburðar er gert ráð fyrir því að sjávarútvegur og áliðnaður skili samtals 31% gjaldeyristekna þjóðarbúsins.

Gert er ráð fyrir hröðum vexti í íbúðafjárfestingu sem verði 27% í ár og 20% á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×