Enski boltinn

Hnévesen á 6,6 milljarða bakverði Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Mendy.
Benjamin Mendy. Vísir/Getty
Benjamin Mendy er á leiðinni til Barcelona. Manchester City er þó ekki að fara að selja hann heldur senda hann til hnésérfræðings.

Forraáðmenn Manchester City óttast að hnémeiðsli Benjamin Mendy séu alvarlegri en í fyrstu var haldið. BBC segir frá.

Benjamin Mendy fór af velli eftir aðeins 29 mínútur þegar Manchester City vann 5-0 sigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Pep Guardiola bjóst við Benjamin Mendy á æfingu í gær en franski landsliðsbakvörðurinn var hinsvegar hvergi sjáanlegur og mun ennfremur missa af leiknum á móti Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni.

Leið Benjamin Mendy liggur aftur á móti til Barcelona þar sem hann mun hitta Ramon Cugat sem er góður vinur Pep Guardiola. Þessi læknir meðhöndlaði þá Vincent Kompany og Kevin de Bruyne á síðasta tímabili.

Manchester City keypti Benjamin Mendy á 52 milljónir punda, 6,6 milljarða íslenskra króna, frá Mónakó í sumar.

Mendy hafði byrjað tímabilið vel í vængbakverðinum og er virkilega spennandi leikmaður sem hjálpar liðinu mikið í sóknarleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×