Viðskipti innlent

Vodafone hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra. un women
Vodafone hlaut í dag Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2017 en það var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sem veitti verðlaunin á morgunfundi um jafnrétti á vinnustöðum í Háskóla Íslands í morgun. Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, veitti verðlaununum viðtöku.

Í áliti dómnefndar sagði meðal annars að Vodafone hefði unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í karllægum geira á öllum sviðum fyrirtækisins. Þannig séu karlar markvisst ráðnir í deildir þar sem konur eru ráðandi og öfugt. Fyrirtækið telji að á þennan hátt sé hægt að sporna við myndun svokallaðra karla-og kvennastarfa.

Að því er fram kemur í tilkynningu um málið sagði forstjóri Vodafone að jafnréttismál snúist um að skapa menningu innan fyrirtækja.

„„Mikilvægt er að skapa menningu jafnréttis á vinnustaðnum og því verkefni verður seint lokið. Við höfum gert fjölmargt hjá Vodafone til að stuðla að og styrkja jafnréttið og næst ætlum við að þróa áfram sérstaka fjölskyldustefnu. Nútímafyrirtæki þurfa að viðurkenna að starfsfólkið hefur fleiri skyldum að gegna en bara gagnvart vinnu og við viljum gefa okkar starfsfólki færi á að finna sjálft bestu lausnir á milli vinnu og fjölskyldulífs,“ sagði Stefán þegar hann hafði veitt verðlaununum viðtöku.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð stóðu fyrir morgunfundinum en markmiðið með Hvatningarverðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×