Erlent

Clinton segir Trump-liða vera hræsnara

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump kallaði gífurlega oft eftir því að Clinton yrði fangelsuð fyrir pósthólfsnotkunina og sagði það til marks um að henni væri ekki treystandi til að taka að sér embætti forseta.
Trump kallaði gífurlega oft eftir því að Clinton yrði fangelsuð fyrir pósthólfsnotkunina og sagði það til marks um að henni væri ekki treystandi til að taka að sér embætti forseta. Vísir/Getty
Hillary Clinton, sem bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna gegn Donald Trump, segir það að minnst sex starfsmenn Trump í Hvíta húsinu hafi notað einkapósthólf til opinberra starfa vera „hámark hræsninnar“. Trump og starfsmenn hans veittust ítrekað að henni í kosningabaráttunni fyrir að hafa notast við einkapósthólf þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Trump kallaði gífurlega oft eftir því að Clinton yrði fangelsuð fyrir pósthólfsnotkunina og sagði það til marks um að henni væri ekki treystandi til að taka að sér embætti forseta.

Úlfaldi úr mýflugu

Þar að auki rannsökuðu nefndir beggja deilda þingsins, sem var og er stjórnað af repúblikönum, málið ítrekað og lengi. Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, rannsakaði einnig málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að ákæra Clinton.

Clinton sagði að Trump og starfsmenn hans hefðu vel vitað að það væri ekki tilefni til að gera svo stórt mál úr tölvupóstamáli hennar. Ef þeim hefði verið alvara ættu þingmenn repúblikanaflokksins nú að vera að kalla eftir rannsókn á notkun starfsmanna Trump á eigin pósthólfum.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um tölvupóstamál Hillary Clinton

New York Times hefur nafngreint sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Trump sem notuðust við eigið pósthólf. Það eru þeir Jared Kushner, Stephen Bannon, Reince Priebus, Gary D. Cohn, Stephen Miller og Ivanka Trump.

Munur á málunum

Opinberum starfsmönnum ber að notast við opinber pósthólf í störfum sínum svo almenningur og eftirlitsaðilar hafi aðgang að þeim.

Þrátt fyrir áköll um hræsni er þó munur á málunum tveimur. Clinton var með ríkisleyndarmál á eigin vefþjóni og notaðist hún eingöngu við þann vefþjón fyrir tölvupóstssamskipti sín sem ráðherra.

Umfang notkunar starfsmanna Trump á eigin pósthólfum liggur ekki fyrir en starfsmenn Hvíta hússins segja það hafa verið af og til. Póstarnir hafa ekki verið gerðið opinberir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×