Körfubolti

Bandaríski háskólakörfuboltinn í vandræðum eftir rannsókn FBI

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auburn er einn af skólanum sem gætu verið í vandræðum hjá NCAA.
Auburn er einn af skólanum sem gætu verið í vandræðum hjá NCAA. Vísir/Getty
Bandaríkjamenn eru með mjög strangar reglur í háskólakörfuboltanum til að koma í veg fyrir allar greiðslur til íþróttamanna en bestu leikmenn skólaliðanna eru aðeins ári frá því að komast í milljóna samninga í NBA.

Nú er hinsvegar komið upp risastórt mútumál þar sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur farið fyrir rannsókn sem hefur verið í gangi í þrjú ár. ESPN segir frá.

Þar er að koma í ljós að margir af virtustu skólunum í bandaríska háskólakörfuboltanum hafa orðið uppvís um reyna að svindla á reglunum og koma stórum peningaupphæðum framhjá kerfinu og til bæði aðstoðarþjálfara og leikmanna.

Aðstoðarþjálfararnir Chuck Person (Auburn), Emanuel Richardson (Arizona), Lamont Evans (Oklahoma State) og Tony Bland (USC) eru meðal þeirra tíu sem eru ákærðir af FBI í tengslum við þetta spillingarmál.

Þessir fjórir aðstoðarþjálfarar eru ákærðir fyrir að taka við mútum til að stýra leikmönnum sinna skóla til ákveðna umboðsmanna og fjármálaráðgjafa.

Annar hluti ákærunnar snýst um það að James Gatto, sem er yfirmaður hjá Adidas, hafi komið stórum greiðslum til þriggja leikmanna gegn því að þeir hafi samþykkt að spila fyrir ákveðna skóla.  Adidas er ekki nefnt á nafn í ákærunni heldur aðeins talað um ónefndan íþróttavöruframleiðanda en það liggur í augum uppi að það sér fyrirtæki Gatto. Bandarískir fjölmiðlar hafa líka nefnt til University of Louisville sem skóla í tengslum við mál James Gatto.

Skólarnir sem um ræðir eiga ekki aðeins hættu á því að starfsmenn þeirra verði sóttir til saka af bandarísku alríkislögreglunni heldur eiga skólarnir einnig á hættu að vera settir í keppnisbann.

Bandaríska alríkislögreglan er enn með rannsóknina í fullum gangi og menn þar á bæ hafa óskað eftir upplýsingum frá fólki sem veit eitthvað um málið. Þar gæti ýmislegt komið fram í dagsljósið.

Það má búast við frekari fréttum af þessum málum sem og viðbrögðum NCAA á næstunni en keppnistímabilið í bandaríska háskólakörfuboltanum hefst í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×