Sport

Draumurinn um Ólympíugull dó snögglega hjá 15 ára eistneskri stelpu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kelly Sildaru á Laureus verðlaunhátið íþróttaheimsins.
Kelly Sildaru á Laureus verðlaunhátið íþróttaheimsins. Vísir/Getty
Það er alltaf leiðinlegt fyrir íþróttafólk að meiða sig en hvað þá þegar þú ert ein sú besta í heimi í þinni grein og aðeins nokkrir mánuðir í næstu Ólympíuleika.

Kelly Sildaru er fimmtán ára súperstjarna á snjóbrettum og margverðlaunuð frá síðustu stórmótum í sinni grein. Hún er líka komin í hóp þekktustu íþróttamanna Eistlands.

Kelly var aðeins nýorðin tólf ára þegar vetrarólympíuleikarnir fóru síðast fram í Sotsjí í Rússlandi 2014 en ætlaði sér stóra hluti á leikunum í Pyeongchang í febrúar næstkomandi.

Hún vann gull á X-leiknum í Aspen 2016 þegar hún var þrettán ára gömul og varð með því yngsti gullverðlaunahafi sögunnar á X-leikunum. Hún vann gullið einnig í ár.

Kelly Sildaru er einnig í forystu í baráttunni um heimsmeistaratitilinn í brekkustíl (slopestyle) á þessu tímabili. Hún fékk fyrst að keppa í heimsmeistarakeppni fullorðinna 27.ágúst síðastliðinn og varð þá heimsmeistari í brekkustíl.

Sildaru var því álitin mjög sigurstrangleg á leikunum í Pyeongchang en það verður ekkert af því að hún keppi þar. Kelly sleit krossband við æfingar á Nýja-Sjálandi og verður frá í sex til níu mánuði. Dagens Nyheder segir frá.

Kelly Sildaru er frá Eistlandi og fædd í febrúar 2002. Hún hefði því haldið upp á sextán ára afmælið á miðjum Ólympíuleikunum í Kóreu.

Næstu vetrarólympíuleikar fara fram í Peking í Kína árið 2022 en þá verður Kelly orðin tvítug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×