Fótbolti

Ancelotti rekinn frá Bayern München

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. Vísir/Getty
Carlo Ancelotti stýrði liði Bayern München í síðasta sinn í gærkvöldi þegar liðið tapaði 3-0 á móti Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni. Fyrstu fregnir voru um að Ítalski þjálfarinn hafi hætt störfum en seinna kom í ljós að hann hafi verið rekinn.

ESPN segist hafa heimildir fyrir því að Ancelotti hafi hætt sjálfur en ekki verið rekinn. Annað kom svo í ljós.



Bæjarar áttu fá svör við leik franska liðsins í París í gær og það mátti heyra á yfirmönnum hjá félaginu að svona frammastaða kallaði á afleiðingar. Þetta var meðal annars versta tap liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessari öld.

Bayern München liðið hafði áður gert 2-2 jafntefli við VfL Wolfsburg á heimavelli í þýsku deildinni og er fyrir vikið dottið niður í þriðja sæti heima fyrir.

Það hefur verið mikil óánægja með frammistöðu Bayern liðsins að undanförnu og pressan kom fyrst fyrir alvöru þegar Bæjarar töpuðu 2-0 á móti 1899 Hoffenheim í þýsku deildinni í byrjun mánaðarins.

Ancelotti tók stórar ákvarðanir fyrir leikinn í gær. Stórstjörnurnar Franck Ribery, Arjen Robben og Mats Hummels voru allir á varamannabekknum og Jerome Boateng komst ekki einu sinni í hópinn. Robben kom ekki inná fyrr en að þeir Dani Alves, Edinson Cavani og Neymar voru búnir að koma PSG í 3-0.

Hinn 58 ára gamli Ítali tók við liðinu af Pep Guardiola fyrir síðasta tímabil og liðið vann þýska meistaratitilinn í vor.

Ancelotti hefur verið þjálfari stórliða í stærstu deildum Evrópu á undanförnum árum en á undan því að þjálfa liða Bayern München þá var hann með Real Madrid á Spáni, Paris Saint Germain í Frakklandi, Chelsea á Englandi og AC Milan á Ítalíu. Það hafa örugglega einhver stór félög í Evrópu áhuga á því að bjóða honum starf.

Uppfært 13:50

Bayern München hefur staðfest að Carlo Ancelotti hafi verið rekinn. Willy Sagnol stýrir liðinu þangað til nýr þjálfari finnst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×