Íslenski boltinn

Óli Stefán að hætta með Grindavík?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson. Vísir/Andri Marínó
Óli Stefán Flóventsson gæti hætt með Grindavíkurliðið eftir tímabilið en hann á að hafa tilkynnt forráðamönnum félagsins að hann ætli ekki að halda áfram með liðið.

Þetta kemur fram í frétt á Fótbolta.net í dag en Óli Stefán vildi sjálfur ekkert tjá sig um málið.

Óli Stefán hefur gert frábæra hluti með nýliða Grindavíkur í Pepsi-deildinni í sumar og það kæmi mörgum á óvart ef hann myndi ekki halda áfram með liðið.

Grindavíkurliðið hefur unnið 8 leiki í Pepsi-deildinni í sumar og er búið að vera í efri hlutanum í allt sumar. Liðið er eins og er í sjötta sæti.

Andri Rúnar Bjarnason hefur blómstrað undir stjórn Óla Stefáns en hann er markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar með 18 mörk þegar ein umferð er eftir.

Óli Stefán byrjaði sem aðstoðarþjálfari hjá Grindavík en tók svo við liðinu fyrir 2016 og kom þá Grindavík upp úr Inkasso deildinni á fyrst ári.

Grindvík mætir Fjölni á heimavelli í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á laugardag og það gæti mögulega orðið síðasti leikur Óla Stefáns með liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×