Íslenski boltinn

Borgarstjórinn skoraði í níu síðustu leikjum sumarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephany Mayor.
Stephany Mayor. Vísir/Þórir Tryggvason
Stephany Mayor innsiglaði sigur Þór/KA á FH í gær en með honum tryggði Þór/KA sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna.

Stephany Mayor náði með þessu að skora á móti öllum níu liðum deildarinnar í einum rykk en hún skoraði í níu síðustu leikjum Þór/KA í sumar. Hún var alls með 19 mörk í 18 leikjum í Pepsi-deildinni.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að Stephany Mayor hafi verið valin besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna í leikslok í gær.

Eina liðið sem hafði náð að halda hreinu á móti Stephany Mayor í síðustu fjórtán leikjum var einmitt lið FH í fyrri leiknum í Kaplakrika. Fyrir utan þann leik hafði hún skorað í öllum leikjum Þór/KA í deildinni frá 7. maí.

Þór/KA tók sér langan tíma í að brjóta ísinn á Þórsvelli í gær en mark Stephany Mayor kom fjórum mínútum eftir að Sandra María Jessen skoraði fyrra markið. Þær skoruðu báðar í síðustu þremur leikjum Þór/KA-liðsins í sumar

Það mátti samt búast við marki frá Stephany Mayor sem náði því að skora á öllum leikjum Þór/KA á Þórsvelli í sumar. Þór/KA spilaði tvo fyrstu leiki tímabilsins í Boganum og skoraði Stephany Mayor sigurmarkið í þeim fyrr sem var á móti Val.

Heimaleikurinn á móti Blikum í Boganum var eini heimaleikurinn þar sem hún var ekki á skotskónum en þá lagði hún upp sigurmarkið fyrir Huldu Ósk Jónsdóttur

Síðustu 9 leikir Stephany Mayor í Pepsi-deildinni í sumar:

1 mark á móti Val

2 mörk á móti Breiðabliki

2 mörk á móti Fylki

3 mörk á móti Haukum

1 mark á móti KR

1 mark á móti ÍBV

1 mark á móti Stjörnunni

1 mark á móti Grindavík

1 mark á móti FH


Tengdar fréttir

Donni: Ólýsanleg tilfinning

Íslandsmeistaratitillinn fór á loft á Akureyri eftir 2-0 sigur Þórs/KA á FH í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×