Tíska og hönnun

Hugmyndasmiður heimilisins

Sólveig Gísladóttir skrifar
Elsa Kristín er mikill fagurkeri. Hún rekur kaffihúsið Mom's Secret Café í Listasafni Íslands og er með snappið Elsa­design.com þar sem hún sýnir þau verkefni sem hún er að vinna að. Myndir/Anton Brink
Elsa Kristín er mikill fagurkeri. Hún rekur kaffihúsið Mom's Secret Café í Listasafni Íslands og er með snappið Elsa­design.com þar sem hún sýnir þau verkefni sem hún er að vinna að. Myndir/Anton Brink Vísir/Anton Brink
Elsa Kristín Auðunsdóttir og Þórður Kárason keyptu sér hús í Garðabæ í byrjun árs. Þau hafa komið sér vel fyrir enda Elsa snillingur í að gera fínt í kringum sig og elsta dóttirin hefur erft næmt auga móður sinnar fyrir hinu fagra.

Elsa er aðalhugmyndasmiðurinn þegar kemur að skipulagningu heimilisins og framkvæmir mikið sjálf í samstarfi við Þórð sem er pípulagningameistari. Elsa rekur kaffihúsið sitt Mom's secret café í Listasafni Íslands ásamt því að vera með opið snapp undir nafninu Elsadesign.com þar sem hún sýnir þau verkefni sem hún hefur verið að vinna að.

„Ég ætlaði reyndar aldrei að hafa snappið opið og nafnið var dálítið grín milli mín og vinkvenna minna af því ég er alltaf með eitthvað, að gera upp hluti, breyta og bæta," segir Elsa glettin. 

Útlit stofunnar er hugarsmíð Elsu frá a til ö og hver hlutur á sinn stað. Borðstofustólarnir eru úr Willamia á Garðatorgi en stofusófinn er gamall sófi sem nýverið var yfirdekktur með svörtu leðri.Vísir/Anton Brink

Áhugasöm frá unga aldri

„Ég er stílistinn og ræð hvernig er inni hjá okkur enda er þetta mitt áhugamál og ég hef mikla ástríðu fyrir að hafa fínt í kringum mig og hef haft það frá unga aldri,“ segir Elsa og telur áhugann liggja í ættinni.

„Pabbi og mamma eru vön að gera hlutina sjálf. Mamma er mikill fagurkeri líkt og systir mín og ég ólst upp við að heimilið væri alltaf fínt,“ segir Elsa sem er óhrædd við að takast á við ný verkefni.

„Ég læri bara það sem ég þarf að læra ef mig langar að gera eitthvað,“ segir hún en flestar sínar hugmyndir segist hún fá hjá sjálfri sér. „Ég bara sé fyrir mér hvernig hlutirnir eiga að vera.“

Eldhússkáparnir eru gamlir en voru málaðir svartir. Höldurnar eru nýjar líkt og tækin og borðplatan.Vísir/Anton Brink

Gert upp á hagkvæman hátt

Elsa og Þórður keyptu húsið sitt við Ásbúð í Garðabæ í febrúar og fluttu inn í byrjun maí. Tímann þar á milli nýttu þau til að láta mála, skipta um einhver gólfefni og laga það sem nauðsynlega þurfti að laga. Í sumar hafa þau haldið áfram að koma sér fyrir og eru nú orðin nokkuð sátt við árangurinn.

Eldhúsið fékk hvað mesta yfirhalningu en þó án þess að skipta um skápa.

„Okkur langaði að gera eitthvað flott án þess að það kostaði of mikið enda langar okkur síðar meir að opna eldhúsið inn í stofu sem verður meiri framkvæmd,“ segir Elsa en þau máluðu innréttinguna svarta, tóku niður efri skápa, settu nýjar borðplötur, höldur, vask og tæki. „Fólk trúir því ekki að þetta sé gamla innréttingin.“

Skipt var um gólfefni í svefnherbergjum og skipt um hurðir. Stofan var aðeins máluð en svo hefur Elsa dundað sér við að raða saman fallegum hlutum, gömlum og nýjum.

„Ég hef gaman af því að blanda saman nýju og gömlu,“ segir hún og tekur sem dæmi fallegan sófa. „Þennan keyptum við notaðan, lökkuðum viðinn svartan og létum yfirdekkja með svörtu leðri.“

Heimasætan Laufey Líf 12 ára hannaði sjálf herbergið sitt.Vísir/Anton Brink

Hannaði herbergið 12 ára

Saman eiga þau Þórður tvær dætur, þriggja ára og níu mánaða, og fyrir átti Elsa dóttur, Laufeyju Líf, 12 ára, sem hefur erft næmt auga móður sinnar.

„Hún hefur mjög sterkar skoðanir á hvernig hlutirnir eigi að vera í herberginu hennar. Hún útbjó lista yfir hvernig hún vildi skipuleggja það, valdi liti, húsgögn og skraut og ég fékk engu að ráða,“ segir Elsa og hlær.

Hún er afar stolt af dótturinni enda útkoman afar flott.

Svefnherbergi yngri stelpnanna er ævintýralegt. Skreytingar á veggjum minna á snæviþakin fjöll en bleikir prinsessulitir ráða ríkjum.Vísir/Anton Brink

Sérleikherbergi er snilld

Tvær yngri dæturnar deila svefnherbergi. „Þar var markmiðið að hafa allt sem krúttlegast og prinsessulegast. Ég vildi hafa smá ævintýraþema og fékk því málarann til að útbúa fjöll með snjó á veggina,“ segir Elsa.

Barnaherbergin eru tvö, í öðru er sofið en í hinu leikið. „Þetta er sniðugt fyrirkomulag því þá er alltaf fínt í svefnherberginu og ekki verið að leika sér eins mikið uppi í rúmi.“

Litlu stelpurnar eru með sérleikherbergi þar sem þær geta ruslað til eins og þær vilja.Vísir/Anton Brink

Skemmtilegt eilífðarverkefni

Þó ýmislegt sé búið að framkvæma er margt eftir.

„Nú er verið að mála húsið að utan. Næsta sumar skiptum við um þakkant og tökum garðinn í gegn hjá okkur. Svo langar mig að taka svefnherbergið mitt í gegn og skipta um teppi á stigapalli. Verkefnin eru endalaus en maður verður að forgangsraða,“ segir Elsa sem hlakkar til að takast á við þetta skemmtilega eilífðarverkefni.

Elsa hefur gaman af því að finna skrautmuni sem passa vel inn í rýmið.Vísir/Anton Brink
Sófinn yfirdekkti og svartmálaði kemur mjög vel út.Vísir/Anton Brink
Prinsessur og ævintýri fá sinn sess í barnaherbergjunum.Vísir/Anton Brink





Fleiri fréttir

Sjá meira


×