Sport

Amanda Nunes varði titilinn í jöfnum bardaga

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Amanda Nunes tókst að verja bantamvigtartitil sinn er hún sigraði Valentinu Shevchenko á UFC 215 í nótt. Bardaginn var jafn en tíðindalítill og var Shevchenko afar ósátt við niðurstöðu dómaranna.

Titilbardagi Amöndu Nunes og Valentinu Shevchenko var aðalbardaginn á UFC 215 í Kanada í nótt. Eftir fimm jafnar en tíðindalitlar lotur kváðu dómararnir úrskurð sinn. Tveir dómarar gáfu Nunes þrjár lotur af fimm en einn dómaranna gaf Shevchenko þrjár lotur. Niðurstaðan því sigur eftir klofna dómaraákvörðun Nunes í vil.

Valentina Shevchenko var hjartanlega ósammála niðurstöðu dómaranna og taldi sig hafa unnið fleiri lotur en Nunes. Máli sínu til stuðnings benti hún á andlit sitt og sagðist varla vera með skrámu á meðan Nunes var með eldrautt nef og blóðnasir að hennar sögn.

Þetta var önnur titilvörn Nunes og var hún hæstánægð með sigurinn. Miklar efasemdir voru uppi um hvort Nunes gæti farið fimm lotur en Nunes virtist spara orkuna til að geta farið allar fimm loturnar. Áhorfendur bauluðu mikið á meðan á bardaganum stóð og minnti bardaginn um margt á bardaga Tyron Woodley og Stephen Thompson á UFC 209.

Bardagakvöldið þótti ágætlega skemmtilegt en öll önnur úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir

Nær Amanda Nunes að fylgja á eftir sigrinum á Rondu?

UFC 215 fer fram í nótt í Edmonton, Kanada, þar sem þær Amanda Nunes og Valentina Shevchenko mætast í aðalbardaga kvöldsins. Upphaflega áttu þeir Demetrious Johnson og Ray Borg að mætast í aðalbardaga kvöldsins en sá síðarnefndi er veikur og getur ekki barist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×