Fótbolti

Jón Guðni lagði upp sigurmark Norrköping

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jón Guðni og félagar í vörn Norrköping voru í vandræðum í dag.
Jón Guðni og félagar í vörn Norrköping voru í vandræðum í dag. vísir/getty
Jón Guðni Fjóluson lagði upp sigurmarkið í 2-1 sigri Norrköping gegn Jonkopings í Íslendingaslag sem átti sér stað í sænsku úrvalsdeildinni í dag en með sigrinum komst Norrköping upp í fimmta sæti deildarinnar.

Jón Guðni og Guðmundur Þórarinsson voru báðir í byrjunarliði Norrköping í dag en Arnór Sigurðsson, Alfons Sampsted og Árni Vilhjálmsson byrjuðu allir á bekknum en Arnór og Árni komu inná í seinni hálfleik.

Kalle Holmberg skoraði sigurmark Norrköping á 52. mínútu eftir sendingu Jóns Guðna en staðan var jöfn í hálfleik 1-1 en þetta var fjórða tap Jonkopings í síðustu fimm leikjum.

Þá var jafnt í öðrum Íslendingaslag í sænsku deildinni þegar Hammarby með Birki Má Sævarsson og Arnór Smárason innanborðs mistókst að vinna á heimavelli gegn AIK þar sem Haukur Heiðar Hauksson lék allan leikinn í vörn gestanna.

Hjörtur Logi Valgarðsson lék seinustu fimm mínúturnar í óvæntum 2-1 sigri Örebro á Malmö á heimavelli en Hirti tókst að krækja í gult spjald á þeim litla tíma sem hann fékk.

Þá léku nafnarnir Kristinn Freyr Sigurðsson og Kristinn Steindórsson í 1-0 sigri Sundsvall á heimavelli gegn Sirius en Höskuldur Gunnlaugsson gat ekki komið í veg fyrir 0-3 tap Halmstad á heimavelli gegn Hacken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×