Viðskipti innlent

Skýringar á gengissveiflum krónunnar nauðsynlegar

María Elísabet Pallé skrifar
Sveiflur á gengi krónu hafa verið miklar frá afnámi hafta sem kemur ekki á óvart en árlegar sveiflur gengisvísitölu krónunnar eru 15% á fyrstu 8 mánuðum ársins.

Jón Bjarki Bentsson yfirhagfræðingur Íslandsbanka segir að Seðlabankinn hafi óvenju viðamiklar og ítarlegar upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti þar sem víðtæk upplýsingaskylda er til bankans. Segir Jón Bjarki að til bóta væri ef upplýsingar væru birtar reglulega.

„Á gjaldeyrismarkaði gilda nátturulega reglur um viðskipti og umhverfi þar nokkuð annað og skiljanlegt að það séu takmörk fyrir því hvað er hægt að birta ítarlegar upplýsingar. Að því sögðu þá er það skiljanleg krafa að þær upplýsingar sem er unnt að gefa séu fyrirliggjandi og ég held að það sé á endanum gagnlegt og gott fyrir okkur öll sem og Seðlabankann líka,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki telur gegnsæi í þessum efnum mikilvægt fyrir íslenskt samfélag.

„Þetta gildir í raun um okkur öll sem búum hér á Íslandi að þær upplýsingar sem við getum haft aðgang að um gengi gjaldmiðilsins og skipta miklu máli fyrir afkomu fyrirtækja, heimila og allra í landinu, að allar upplýsingar sem stætt er á að gefa opinberar komi fram,“segir Jón Bjarki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×