Handbolti

Björgvin Páll: Í fyrsta skipti í langan tíma er ég stressaður fyrir leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Björgvin í búningi Hauka.
Björgvin í búningi Hauka. vísir/stefán
„Þetta er sigur. Þetta var erfiður sigur, en við vorum með þá allan leikinn þó við misstum þetta í tæpan leik í restina,” sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, í samtali við Vísi í leikslok eftir tveggja marka sigur Hauka á ÍR í fyrstu umferð Olís-deildar karla.

„Það var gaman að sigla þessum heim, en ÍR spilaði hörkuvörn á okkur í síðari hálfleik. Grétar var að verja mjög vel í markinu og það gerði okkur þetta erfitt fyrir.”

Haukar spiluðu mjög vel varnarlega í fyrri hálfleik og það má kannski sjá það á úrslitunum að þetta er ekki skor sem menn eru vanir því að sjá í nútíma handbolta.

„Það er smá gamaldags skor á þessu, 21-19, en við erum sáttir við að halda vörninni vel svo ég er kátur,” en varnarleikur Hauka var hreint út sagt frábær, sér í lagi í fyrri hálfleik og Björgvin öflugur þar fyrir aftan:

„Hann var geggjaður í fyrri hálfleik. Kristján í hægra horninu var að fara dálítið illa með mig í fyrri hálfleik, en þetta er auðvitað bara byrjunin. Við erum búnir að spila vel varnarlega á undirbúningstímabilinu," en hvernig er að vera kominn heim?

„Geggjað. Æðislegt að komast heim og í fyrsta skipti í langan tíma var ég stressaður fyrir handboltaleik,” sagði þessi skemmtilegi markvörður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×