Handbolti

Davíð: Við erum bara litla liðið með litlu nöfnin

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Davíð lætur venjulega vel í sér heyra.
Davíð lætur venjulega vel í sér heyra. vísir/anton
„Þeir spiluðu bara djöfulli erfiða 4-2 vörn í lokin, sem við vorum of lengi að leysa, mjög einfalt. Við vorum með þá að mér fannst allan leikinn, en við náðum ekki að leysa þessa vörn þeirra í lokin nógu snemma,“ sagði svekktur Davíð Svansson, markmaður Víkinga, eftir jafnteflið við Fjölni í fyrstu umferð Olís deildar karla í handbolta.

Eftir góðan fyrri hálfleik, þar sem baráttuglaðir Víkingar náðu góðu forskoti, lentu Víkingar í basli með framliggjandi vörn Fjölnismanna. Davíð var samt bjartsýnn fyrir komandi leiki og þokkalega ánægður með leik sinna minna.

„Við þurfum að gera betur en þetta á móti stærri liðunum, en þetta er bara fyrsti leikur og við þurfum að nota hann til að læra af þessu. Mér fannst við spila þokkalega á 6-0 og 5-1 vörnina þeirra. Það vantaði kannski smá reynslu í það að klára leikinn. Við hefðum átt að vera komnir 8 mörkum yfir þegar þeir skipta yfir í 4-2 vörnina.“

Blaðamaður spurði Davíð hvort hann teldi Víkinga eiga góða möguleika á því að halda sér uppi í ár þrátt fyrir að þeim hafi verið spáð neðsta sæti af sérfræðingum Seinni Bylgjunnar og forráðamönnum félaga Olís-deildarinnar.

„Við tökum þetta leik fyrir leik, við erum bara litla liðið með litlu nöfnin, en það gefur okkur bara „boozt“ til að reyna að gera betur. Reyna að stela stigum hér og þar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×