Íslenski boltinn

Willum: Mjög markviss vinna með unga leikmenn í KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í útvarpsþættinum Akraborginni í dag.

KR steinlá fyrir ÍBV, 0-3, í Pepsi-deildinni á laugardaginn. Willum var talsvert gagnrýndur fyrir að nota Guðmund Andra Tryggvason ekki í leiknum. Þjálfarinn segir að umræðan hafi verið á villigötum enda hafi Guðmundur Andri verið meiddur.

„Annar flokkurinn spilaði mjög erfiðan og þýðingarmikinn leik á fimmtudegi þar sem Guðmundur Andri meiddist á ökkla. Það ærðist allt þegar hann kom ekki inn á. Hann var bara meiddur og treysti sér ekki inn á,“ sagði Willum.

„Við verðum líka að passa upp á hann. Hann spilaði 90 mínútur á laugardegi á móti Wales, 90 mínútur á þriðjudegi gegn Wales, 90 mínútur á fimmtudegi á móti Breiðabliki. Þetta var stórkarlalegur leikur á margan hátt og hörkunávígi. Hann treysti sér ekki inn á.“

Willum hefur fengið nokkra gagnrýni fyrir að gefa ungum KR-ingum ekki nógu mörg tækifæri í sumar. Hann segir að það sé markvisst unnið að því að fjölga ungum KR-ingum í aðalliðinu.

„Það er mjög markviss vinna í gangi með það. Það er haldið vel utan um unga menn. Við erum með efnilega stráka, fædda árið 1999. Ástbjörn [Þórðarson] kom inn á móti Fjölni og Val, í þýðingarmiklum leikjum og þurfti að leysa ákveðið hlutverk. Hann er bara næsti maður inn í vörn. Það er staðan,“ sagði Willum.

„Það voru fjórir ungir menn á bekknum í þessum leik [gegn ÍBV]. Það er mjög fín vinna með unga menn í KR. Það er allt í góðum málum.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira