Viðskipti innlent

Stundin tapaði tæplega níu milljónum í fyrra

Hörður Ægisson skrifar
Tekjur af starfsemi Stundarinnar jukust um liðlega 30 milljónir á milli ára og námu samtals 120,6 milljónum á árinu 2016.
Tekjur af starfsemi Stundarinnar jukust um liðlega 30 milljónir á milli ára og námu samtals 120,6 milljónum á árinu 2016.
Útgáfufélagið Stundin ehf. var rekið með tæplega 8,6 milljóna króna tapi í fyrra borið saman við 12,9 milljóna króna tap árið áður. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi var eigið fé félagsins jákvætt um 2,9 milljónir í árslok 2016.

Tekjur af starfsemi Stundarinnar jukust um liðlega 30 milljónir á milli ára og námu samtals 120,6 milljónum á árinu 2016. Tilkynnt var um það í nóvember 2015 að prentútgáfa Stundarinnar myndi koma út tvisvar í mánuði í stað einu sinni.

Útgáfukostnaður Stundarinnar var ríflega 50 milljónir í fyrra og þá jókst launakostnaður um 20 milljónir á milli ára og var samtals 67 milljónir. Á árinu 2016 voru 8,8 stöðugildi hjá félaginu. Heildar­skuldir Stundarinnar nema 12,6 milljónum króna, að stærstum hluta viðskiptaskuldir.

Hluthafar félagsins voru 16 talsins í lok síðasta árs en sjö hluthafar, meðal annars ritstjórarnir Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttur, áttu hver um sig 12,2 prósenta hlut. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.

Uppfært klukkan 10:49

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var Ingibjörg sögð aðstoðarritstjóri. Hún er ritstjóri ásamt Jóni Trausta. Beðist er velvirðingar á þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×