Viðskipti innlent

Vogunarsjóðir að gerast virkir eigendur að Arion banka

Hörður Ægisson skrifar
Stefnt er að skráningu Arion banka síðar á árinu.
Stefnt er að skráningu Arion banka síðar á árinu. vísir/anton brink
Vogunarsjóðirnir Taconic Capital og Attestor Capital, sem hvor um sig eignuðust 9,99 prósenta hlut í Arion banka fyrr á árinu, munu teljast hæfir til að fara með virkan eignarhlut í bankanum. Fjármálaeftirlitið (FME) er að leggja lokahönd á hæfismat sitt á sjóðunum en niðurstaða þess, sem ætti að birtast í þessari eða næstu viku, verður sú að þeim sé heimilt að eiga beint og óbeint samanlagt meira en tíu prósenta hlut í Arion banka, samkvæmt heimildum Markaðarins. Sjóðirnir eru jafnframt stærstu hluthafar Kaupþings sem á 58 prósenta hlut í bankanum.

Samhliða því að þeir verða metnir hæfir eigendur að bankanum munu sjóðirnir í kjölfarið fá atkvæðarétt í samræmi við hlutafjáreign sína í Arion banka. Þegar vogunarsjóðirnir þrír – Taconic Capital, Attestor Capital og Och-Ziff Capital – og Goldman Sachs keyptu rúmlega 29 prósenta hlut í Arion banka af Kaupþingi fyrir samtals um 49 milljarða þá féllust sjóðirnir á að hlutum þeirra myndi ekki fylgja atkvæðaréttur þar til þeir yrðu metnir hæfir til að fara með virkan eignarhlut eða að bankinn yrði skráður á markað.

Taconic og Attestor sendu upphaflega tilkynningu til FME í apríl síðastliðnum þar sem þeir fóru þess á leit að hefja formlega hæfismatsferli um að eiga meira en tíu prósenta hlut í Arion banka en sé einnig litið óbeins eignarhalds þeirra í gegnum Kaupþing fara þeir yfir þau mörk. FME hefur 60 virka daga til að afgreiða umsókn sjóðanna frá staðfestingu fullbúinnar tilkynningar en samkvæmt heimildum Markaðarins var það ekki fyrr en í byrjun júlí sem stofnunin taldi að slík tilkynning hefði borist frá báðum sjóðunum. Frestur FME til að ljúka hæfismati sínu á sjóðunum mun því brátt renna út.

Á meðal þeirra atriða sem hafa komið til skoðunar í hæfismatsferlinu er orðspor sjóðanna til að fara með virkan eignarhlut og eins fjárhagslegur styrkur þeirra til að styðja við Arion banka. Breski vogunarsjóðurinn Attestor Capital hefur áður verið metinn hæfur af fjármálayfirvöldum í Evrópu til að vera virkur eigandi að fjármálafyrirtæki en sjóðurinn fékk slíka heimild í tengslum við kaup á austurríska bankanum Kommunalkredit árið 2015.

Sá sem stýrir félaginu sem heldur utan um hlut Taconic Capital í Arion banka og hefur allt ákvörðunarvald um fjárfestingar þess er Frank Brosens, eigandi sjóðsins.Nordicphotos/Getty Images
Þá hefur FME einnig til skoðunar hæfi Kaupþings til að fara beint með virkan eignarhlut í Arion banka en frá árinu 2010 hefur það verið í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil. Það fyrirkomulag verður hins vegar brátt fellt niður og því er nauðsynlegt fyrir Kaupþing að fá samþykki FME til fara með meira en tíu prósenta hlut í bankanum. Að öðrum kosti þyrfi eignarhaldsfélagið að losa um að lágmarki um 48 prósenta hlut í Arion banka – félagið á núna 57,9 prósent í bankanum – í fyrirhuguðu hlutafjárútboði. Það er talsvert meiri hlutur en áformað er að selja í útboðinu. Ekki liggur fyrir um niðurstöðu FME á hæfi Kaupþings en væntingar eru um að hún liggi fyrir síðar í þessum mánuði.

Fundað með stjórnvöldum

Hvenær – og hvort – af hlutafjárútboði Arion banka verður ræðst meðal annars af því hvenær FME lýkur mati sínu á hæfi vogunarsjóðanna og Kaupþings og eins að samkomulag náist við íslensk stjórnvöld um að þau ætli ekki að nýta sér mögulegan forkaupsrétt á bankanum ef hann yrði seldur á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé. 

Samkvæmt þeim stöðugleikaskilyrðum sem kröfuhafar Kaupþings samþykktu 2015 er gert ráð fyrir því að ákvæði um forkaupsrétt ríkisins sé endurskoðað við opið hlutafjárútboð. Að öðrum kosti er talið óframkvæmanlegt að halda slíkt útboð þar sem forkaupsrétturinn myndi skapa óvissu og aftra fjárfestum frá þátttöku í útboðinu. Fulltrúar Kaupþings hafa á undanförnum tveimur vikum, samkvæmt heimildum Markaðarins, átt fjölmarga fundi með forystumönnum stjórnvalda og embættismönnum í fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum þar sem unnið er að því að ná samkomulagi um endurskoðun ákvæðisins um forkaupsrétt ríkisins.

Vogunarsjóðirnir þrír og Goldman Sachs hafa kauprétt að 22 prósenta hlut í viðbót í bankanum, sem gildir til 19. september næstkomandi, en hvorkir sjóðirnir né bandaríski fjárfestingabankinn áforma að nýta sér þann rétt, eins og upplýst var um í Markaðnum í síðasta mánuði. Sá kaupréttur er á nokkuð hærra sölugengi en þegar þeir keyptu hlut í Arion banka fyrr á árinu. Hins vegar er fastlega gert ráð fyrir því, að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála, að einhverjir sjóðanna muni bæta við hlut sinn í bankanum með því að taka þátt í væntanlegu útboði enda sé ekki ólíklegt að þar muni bjóðast hlutur í bankanum á hagstæðara gengi heldur en kauprétturinn hljóðaði upp á.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×