Enski boltinn

Cardiff tapaði fyrsta leiknum og missti toppsætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar lék allan leikinn fyrir Cardiff.
Aron Einar lék allan leikinn fyrir Cardiff. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Cardiff City sem tapaði 3-0 fyrir Preston á Deepdale í ensku B-deildinni í kvöld.

Þetta var fyrsta tap velska liðsins á tímabilinu. Cardiff er í 2. sæti deildarinnar með 16 stig, einu stigi á eftir toppliði Leeds United sem vann Birmingham City, 2-0, í kvöld.

Birkir Bjarnason var tekinn af velli í hálfleik þegar Aston Villa gerði markalaust jafntefli við Middlesbrough á Villa Park.

Tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum. Adama Traoré, leikmaður Boro, var rekinn út af strax á 4. mínútu og Henri Lansbury, leikmaður Villa, fór sömu leið á 64. mínútu.

Birkir og félagar eru í 18. sæti deildarinnar en þeir hafa aðeins unnið einn leik á tímabilinu.

Hörður Björgvin Magnússon sat allan tímann á varamannabekknum þegar Bristol City gerði 3-3 jafntefli við Wolves á útivelli. Bristol City er í 12. sæti deildarinnar með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×