Fastir pennar
Þorbjörn Þórðarson

Ábyrg stefna

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjárlagafrumvarp ársins 2018 var kynnt í gær og gerir það ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi á rekstri ríkisins á næsta ári. Í ljósi þess ramma sem lög um opinber fjármál setja utan um útgjöld ríkisins og þeirrar gagnrýni sem kom fram í umsögn fjármálaráðs um ríkisfjármálastefnuna 2018-2022 fyrr á þessu ári var fjármálaráðherra nauðugur einn kostur að stíga á bremsuna.

Ríkisfjármálin eru ekki sérstaklega áhugaverður eða vinsæll málaflokkur í pólitísku tilliti. Ráðherra sem talar um ábyrgð og festu í ríkisfjármálum er ekki líklegur til að skora mörg stig hjá kjósendum nema kannski þeim sem hafa háskólapróf í hagfræði. Það er líka býsna árangursrík aðferð til að svæfa mann hratt að ræða við hann um ríkisfjármál enda byrja flestir að geispa við það eitt að heyra orðið frumjöfnuður. Ríkisfjármálin eru engu að síður langmikilvægasti málaflokkurinn og upphaf og endir allrar pólitískrar stefnumörkunar. Ábyrg stefna í ríkisfjármálum er mikilvægasta velferðarmálið. Því ef skuldastaða ríkisins er vond er vaxtabyrðin þung og því minna svigrúm til útgjalda til brýnna velferðarmála.

Skuldir ríkisins jukust gríðarlega eftir banka- og gjaldeyrishrunið og nær fimmfölduðust á einu og hálfu ári eftir hrun. Skuldahlutfallið fór hæst í 117 prósent af vergri landsframleiðslu í lok árs 2011. Frá þeim tíma hafa skuldirnar verið kerfisbundið trappaðar niður. Bæði vinstri- og hægristjórnir síðustu tveggja kjörtímabila hafa ráðist í þetta verkefni af festu og ábyrgð. Bara á þessu ári munu skuldir ríkisins lækka um 233 milljarða króna. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs verði komnar niður í 28 prósent af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs. Árið 2015 þótti það metnaðarfullt markmið að ná þessu hlutfalli niður fyrir 50 prósent árið 2019 sem sýnir kannski í hnotskurn hversu mikill árangur hefur náðst við niðurgreiðslu skulda á síðustu árum.

Einhverjir stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa kvartað yfir því að álögur á landsmenn hafi ekki verið lækkaðar af neinu viti. Á síðasta ári var hagvöxtur 7,2 prósent hér á landi sem er hærra en hjá nokkru öðru OECD-ríki. Fram kemur í glærukynningu fjármála- og efnahagsráðherra með fjárlagafrumvarpinu að þótt útlit sé fyrir að það hægi á vextinum verði efnahagsaðstæður hér á landi áfram góðar. Enda er gert ráð fyrir 3,3 prósenta hagvexti á þessu ári. Það er eðlilegt að svigrúm til skattalækkana verði nýtt í næstu niðursveiflu til að örva eftirspurn. Enda væri það glórulaus stefna að lækka skatta í miðri uppsveiflu.

Gert er ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi eins og áður segir sem er talsvert meira en afgangur þessa árs. Í uppsveiflu verður ríkissjóður að skila eins miklum afgangi og er mögulegur og raunhæfur. Bæði til þess að búa í haginn og lækka skuldir en einnig til þess að hafa taumhald á þenslu. Ekki verður annað séð en að ríkisstjórnin hafi haft þessi ábyrgu markmið að leiðarljósi við gerð fjárlagafrumvarpsins.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira