Erlent

Borgarstjóri segir af sér vegna ásakana um kynferðisofbeldi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Ed Murray hefur gegnt embætti borgarstjóra frá árinu 2014. Hann neitar ásökunum um kynferðisofbeldi.
Ed Murray hefur gegnt embætti borgarstjóra frá árinu 2014. Hann neitar ásökunum um kynferðisofbeldi. Vísir/Getty
Ed Murray, borgarstjóri Seattle-borgar, tilkynnti afsögn sína í gær eftir að fimm menn höfðu ásakað hann um kynferðisofbeldi.

Nokkrum klukkustundum áður en hann sagði af sér birti Seattle Times viðtal við frænda Murray þar sem hann sakar borgarstjórann um kynferðisofbeldi í æsku.

Áður höfðu fjórir aðrir menn ásakað Murray um ofbeldi og lagði einn þeirra fram kæru á hendur honum í apríl síðastliðnum.

Murray hefur ávallt neitað ásökununum og hefur sagt að þær séu pólitísks eðlis, til þess að hindra framgang stefnumála hans í málefnum hinsegin fólks og innflytjenda. Hann segir einnig að deilur innan fjölskyldunnar séu ástæða þess að frændi hans hafi stigið fram og ásakað hann um ofbeldi.

Murray var kjörinn í embætti árið 2014 og er hann fyrsti samkynhneigði maðurinn sem gegnir embætti borgarstjóra.

Í yfirlýsingu sem Murray gaf út í gær segir hann að það þjóni hagsmunum borgarinnar að hann segi af sér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×