Handbolti

Stelpurnar í Fram eins og fegurðardrottningar sem gleyma að vinna í grunngildunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán skammar leikmenn sína í leikhléi í leiknum í gærkvöldi.
Stefán skammar leikmenn sína í leikhléi í leiknum í gærkvöldi. Vísir/Ernir
Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Fram í handbolta, var ekki par sáttur við leikmenn sína eftir 24-24 jafnteflið gegn Gróttu í 1. umferð Olísdeildar kvenna í gærkvöldi. Líkti hann leikmönnum sínum við fegurðardrottningar sem væru ekki að vinna í sínum grunngildum.

Fram var á heimavelli, ríkjandi Íslandsmeistari auk þess sem liðinu er spáð velgengni í vetur á meðan reiknað hafði verið með Gróttustelpum í neðri hluta deildarinnar. Grótta fékk gullið tækifæri til að tryggja sér óvæntan sigur en Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vítakast Lovísu Thompson á lokasekúndunum og tryggði Safamýrarliðinu annað stigið.

„Þegar það er búið að segja við fegurðardrottningu alltaf hvað hún er falleg, og hún gleymir að vinna í sínum grunngildum, þá verður hún aldrei kosin fegurðardrottning,“ sagði Stefán í viðtali við RÚV eftir leikinn. Hann var ekki spurður nánar út í það hvaða grunngildi það væri sem fegurðardrottningar þyrftu að hafa í hávegum.

Viðtalið má sjá hér að neðan.


Stefán vakti athygli í viðtölum í úrslitakeppninni í fyrra þegar hann líkti leið Framara að Íslandsmeistaratitlinum við kapphlaup upp á efstu hæð í níu hæða blokk.

Í viðtölum eftir hvern leik staðsetti hann liðið í blokkinni á leið upp stigann. Hvort Stefán ætli að vinna frekar með dæmisögur af fegurðardrottningum í vetur á eftir að koma í ljós.

Að neðan má sjá myndasyrpu úr leiknum. Ýta þarf á örvarnar til að fletta í tölvu eða draga myndirnar í snjallsíma. Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók myndirnar.



Tengdar fréttir

Óvænt á Selfossi

Selfoss vann óvæntan sigur á bikarmeisturum Stjörnunnar, 32-31, þegar liðin mættust í Vallaskóla á Selfossi í 1. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×