Handbolti

Stelpurnar í Fram eins og fegurðardrottningar sem gleyma að vinna í grunngildunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán skammar leikmenn sína í leikhléi í leiknum í gærkvöldi.
Stefán skammar leikmenn sína í leikhléi í leiknum í gærkvöldi. Vísir/Ernir

Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Fram í handbolta, var ekki par sáttur við leikmenn sína eftir 24-24 jafnteflið gegn Gróttu í 1. umferð Olísdeildar kvenna í gærkvöldi. Líkti hann leikmönnum sínum við fegurðardrottningar sem væru ekki að vinna í sínum grunngildum.

Fram var á heimavelli, ríkjandi Íslandsmeistari auk þess sem liðinu er spáð velgengni í vetur á meðan reiknað hafði verið með Gróttustelpum í neðri hluta deildarinnar. Grótta fékk gullið tækifæri til að tryggja sér óvæntan sigur en Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vítakast Lovísu Thompson á lokasekúndunum og tryggði Safamýrarliðinu annað stigið.

„Þegar það er búið að segja við fegurðardrottningu alltaf hvað hún er falleg, og hún gleymir að vinna í sínum grunngildum, þá verður hún aldrei kosin fegurðardrottning,“ sagði Stefán í viðtali við RÚV eftir leikinn. Hann var ekki spurður nánar út í það hvaða grunngildi það væri sem fegurðardrottningar þyrftu að hafa í hávegum.

Viðtalið má sjá hér að neðan.Stefán vakti athygli í viðtölum í úrslitakeppninni í fyrra þegar hann líkti leið Framara að Íslandsmeistaratitlinum við kapphlaup upp á efstu hæð í níu hæða blokk.

Í viðtölum eftir hvern leik staðsetti hann liðið í blokkinni á leið upp stigann. Hvort Stefán ætli að vinna frekar með dæmisögur af fegurðardrottningum í vetur á eftir að koma í ljós.

Að neðan má sjá myndasyrpu úr leiknum. Ýta þarf á örvarnar til að fletta í tölvu eða draga myndirnar í snjallsíma. Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók myndirnar.


Tengdar fréttir

Óvænt á Selfossi

Selfoss vann óvæntan sigur á bikarmeisturum Stjörnunnar, 32-31, þegar liðin mættust í Vallaskóla á Selfossi í 1. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira