Innlent

Svipmynd af Magnúsi Garðarssyni: Dýfingameistari, ökufantur og ævintýramaður

Jakob Bjarnar skrifar
Ferill Magnúsar er um margt óvenjulegur en hann var afreksmaður í dýfingum og áhugi hans á hraðskreiðum bílum hefur komið honum í bobba.
Ferill Magnúsar er um margt óvenjulegur en hann var afreksmaður í dýfingum og áhugi hans á hraðskreiðum bílum hefur komið honum í bobba.

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi hins umdeilda fyrirtækis United Silicon, er grunaður um hafa dregið sér um hálfan milljarð með fölsuðum reikningum gefnum út á búnaðarframleiðandann Tenova Pyromet á Ítalíu. 

Hann er jafnframt sakaður um að hafa haldið áfram svikum eftir að hann hætti í stjórn United Silicon og haft samband við Tenova eftir að hann var hættur afskiptum af rekstri kísilversins. Ný stjórn United Silicon hefur kært Magnús til embættis héraðssaksóknara vegna málsins og Arionbanki, stærsti hluthafi fyrirtækisins íhugar að kæra. 

Magnús vísaði þessu öllu hins vegar á bug með yfirlýsingum. Og sagði í stuttu samtali við mbl.is í gær:  „Þetta er nátt­úru­lega bara stærsta bull og vit­leysa sem ég hef nokk­urn tím­ann lesið.“

En, hver er hann þessi Magnús? Við eftirgrennslan kemur á daginn að hér fer mikill ævintýramaður.

Ólst upp í Kópavogi

Í ágúst árið 2014 fjallaði Viðskiptablaðið ítarlega um fyrirhugaða opnun United Silicon, en fyrirtækið er að mestu undan rifjum Magnúsar runnið. Hugmyndin að byggingu verksmiðjunnar „kviknaði fyrir nokkrum árum í Danmörku þegar Magnús og bræður hans voru hluthafar í danska félaginu Topsil í Frederikssund.“

Trausti Hafliðason blaðamaður ræddi við Magnús og segir frá því að hann sé fæddur á Íslandi árið 1970 en stærstan hluta ævinnar hefur hann þó búið í Danmörku.

„Hann er kvæntur danskri konu og eiga þau tvö börn saman en Magnús á einnig tvö önnur börn úr fyrra sambandi. Börnin eru tveggja til fjórtán ára gömul. Fjölskyldan hyggst flytja til Íslands í byrjun næsta árs, þar sem Magnús hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri United Silicon,“ segir í Viðskiptablaðinu sem tilkynnir að „kísilvæðing Íslands sé formlega hafin“.

Áhugi Magnúsar á dýfingum leiddi til þess að hann fór til Bandaríkjanna til náms. Hér má sjá svipmynd af honum frá Heimsmeistaramótinu í klettadýfingum árið 1998.

Magnús segir svo frá að hann hafi sem drengur búið í Kópavogi og gengið í Kársnesskóla en þegar hann var níu ára flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar. „Ég hef búið í Danmörku mest allt mitt líf þó ég komi mjög reglulega til Íslands. Ég hef náttúrlega verið með annan fótinn á Íslandi síðustu misserin útaf þessu kísilverkefni,“ segir Magnús við blaðamann Viðskiptablaðsins.

Dýfingameistari

Magnús lærði verkfræði í Tækniháskólanum í Danmörku (DTU), sem margir Íslendingar þekkja og fór þaðan í Florida Atlantic University (FAU) hvaðan hann lauk síðan meistaranámi í umhverfisverkfræði frá DTU. Á námsárum Magnúsar í Danmörku lagði hann stund á dýfingar og varð tvisvar Danmerkurmeistari í þeirri grein. Ástæðan fyrir því að hann fór til Flórída var meðal annars sú að þar voru góðir þjálfarar í dýfingum en Magnús hugðist reyna að komast á Ólympíuleikana í Atlanta árið 1996.

„Ég var ansi nálægt því að komast á Ólympíuleikana en ég meiddist á hné í lok árs 1995 og þar með var sá draumur úti,“ segir Magnús í samtali við Viðskiptablaðið.

Magnús vakti seinna athygli fyrir vasklega framgöngu í klettadýfingum og má hér sjá hann sýna listir sínar við þá íþrótt.

Harður í horn að taka

Að námi loknu var Magnús ráðinn til danska ráðgjafa- og verktakafyrirtækisins Kampsax þar sem hann starfaði í tíu ár eða allt til ársins 2004. Þá stofnaði hann þróunarfélagið Tomahawk Development með dönskum félaga sínum Thomasi Hübschmann.

Svo virðist sem þeir Magnús og Thomas hafi verið harðir í horn að taka í Danmörku. Árið 2009 komust þeir félagar í fréttir, þá sagðir brjóta á réttindum pólskra verkamanna í tengslum við byggingaframkvæmdir. Þar segir meðal annars af því að Magnús Garðarsson hafi, sem verkfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Cowi, brotið samkeppnislög með framferði sínu.

Magnús hrökklaðist frá störfum í Danmörku eftir að hafa orðið uppvís af að hafa brotið á réttindum pólskra verkamanna, misnotað nafn fyrirtækisins COWI og reikninga. Hér er hann að ræða við danskan lögreglumann.

Ekki fer frekari sögum af þeim væringum eða eftirmálum nema, fram kemur að Magnúsi hafi verið gert, eða þvingaður til öllu heldur, að segja upp störfum. Ástæðan eru ásakanir um að hafa misnotað nafn vinnuveitandans og reikninga hans. (Den ene af de af de to bagmænd for arbejdet på det konfliktramte byggeri i Trekronergade er blevet tvunget til at sige sit arbejde i det rådgivende ingeniørfirma Cowi op. Årsagen er misbrug af arbejdsgiverens navn og konto, fortæller Jesper Weihe, formand for byggegruppen i Byggefagenes Samvirke.“)

„Stærsta kísilverksmiðja í heimi“

Það var heldur betur stemmning og kátur hópur sem kom saman við það tækifæri þegar fyrsta skóflustungan af kísilverksmiðjunni var tekin í ágúst 2014.

„Jájá, þetta er stór stund. Ekki bara fyrir okkur og samfélagið í Reykjanesbæ heldur Ísland í heild. Þetta er nýr iðnaður sem er að koma til landsins,“ sagði Magnús kampakátur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, og fleiri fyrirmenni í íslensku samfélagi tóku fyrstu skóflustunguna að verksmiðjunni í Helguvík suður með sjó. Þetta var í ágúst 2014. Og Sigmundur Davíð tók í sama streng, þetta væri vissulega stór stund því þarna stefni í að yrði stærsta kísilverksmiðja í heimi.

Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, var á vettvangi og lýsti þessari stóru stund, sem reyndist líkt og þegar fjallið tók joðsótt og fæddist mús. Í það minnsta reis ekki stærsta kísilfabrikka í heimi, mannkyni öllu til heilla með framleiðslu á þessu helsta efnis sem þarf í sólarrafhlöður.

Mengunarskýin hrannast upp við sjóndeildarhringinn

Verksmiðjan hefur sem sagt ekki reynst sú góða mjólkurkú fyrir íslenskt samfélag og aðstandendur og hinir bjartsýnu ráðamenn töluðu um að yrði. Og það sem meira er: Mengunarskýin tóku þegar að hrannast upp við sjóndeildarhringinn.

Haraldur Guðmundsson, blaðamaður Fréttablaðsins, sem þá starfaði á DV, greindi frá því í desember 2015 að danska verkfræðistofan COWI, hvar Magnús hafði starfað áður eins og áður segir, vísaði því alfarið á bug að hafa unnið útreikninga um loftmengun kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þetta gekk þvert á fullyrðingar Magnúsar þar um en COWI fór fram á að nafn og merki danska fyrirtækisins yrðu fjarlægð úr minnisblaði um loftdreifiútreikninga verksmiðjunnar.

Skipulagsstofnun féllst á það en dró þó niðurstöðurnar ekki í efa; að mengun yrði undir leyfilegum viðmiðunarmörkum. Magnús vildi ekkert tjá sig um málið en menn lyftu brúnum og íbúar á Suðurnesjum fóru að kvarta undan mengun frá verksmiðjunni. Þessi óánægja hefur farið stigvaxandi og hefur Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra sett rekstrinum stólinn fyrir dyrnar.

Brokkgengur og stuttur ferill United Silcon

Reyndar er saga United Silicon furðanlega stutt eins og Guðmundur Hörður Guðmundsson umhverfisfræðingur rekur í grein þar sem hann kallar eftir rannsókn á fyrirtækinu, uppgangi þess og spyr hver græddi á United Silicon?. Þrjú ár líða frá því að fyrsta skóflustungan er tekin þar til fyrirtækið óskar eftir greiðslustöðvun til að forða sér frá gjaldþroti.

Hún er brokkgeng saga verksmiðjunnar í Helguvík, þó Magnús hafi verið brattur.

„Á þessum skamma tíma komst reksturinn í hámæli vegna mengunar, lélegra kjara starfsfólks, athugasemda Vinnueftirlitsins um aðstöðu starfsfólks, eldsvoða í verksmiðjunni, ógreiddra lóðagjalda og svo alvarlegra átaka við verktaka sem byggðu verksmiðjuna að lögregla þurfti að skakka leikinn. Flest af þessu var endurtekið efni hjá framkvæmdastjóra United Silicon frá því hann brenndi brýrnar í Danmörku.“

Bíllinn eins og eldflaug af stað

En, meðan þessu fór fram vakti Magnús sjálfur athygli fyrir bíladellu sína, hann ók um á Teslabifreið; Tesla Model S P85D – 690 hestöfl, kraftmesti rafbíll sem komið hefur til landsins, 690 hestöfl og aðeins 3,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað kílómetra hraða á klukkustund. Viðskiptablaðið ræðir við Magnús um þennan bíl sem kostaði 20 milljónir, en fram kemur að hann á annan í Danmörku hvar hann heldur annað heimili.

„Bíllinn er eins og eldflaug af stað, slíkur er krafturinn. Það er sérlega gaman að keyra bílinn í Sport og Insane stillingunum enda feykilegt afl. Svo eru óteljandi valmöguleikar í tækninni sem stýra má á snertiskjánum eins og útvarp, tenging beint við síma, GPS, internet, tölvupóstur og svo getur maður bætt vid appi í tölvu bílsins, eins og t.d. spotify, youtube, facebook og annað sem manni finnst gaman að,“ segir Magnús.

Einkennilegar skýringar á undarlegu ökulagi

Og það er einmitt sú bifreið og ökulag eigandans sem er í aðalhlutverki í frétt Atla Más Gylfasonar, blaðamanns á DV, sem er hin furðulegasta.

Þar segir frá því að Magnús hafi verið handtekinn í desember 2016, talinn hafa valdið umferðarslysi með vítaverðum akstri sínum. Samkvæmt heimildum Atla Más, þar sem vísað er til ökurita bifreiðarinnar, þá ók Magnús á 180 kílómetra hraða á Reykjanesbrautinni á Tesla-bíl sínum.

Magnús á tvær Teslabifreiðar en lögreglan lagði hald á aðra þeirra en Magnús á tíu hraðakstursmál í kerfinu á Íslandi og eitt í Danmörku.

Í fréttinni segir að lögreglan hafi farið fram á að bíllinn yrði gerður upptækur, en hann var, samkvæmt frétt DV, í vörslu lögreglu. Magnús hefur allt aðra sögu að segja. Hann segist ekki hafa verið handtekinn heldur hafi hann fengið far hjá lögreglu í vinnuna, þá af slysstað en samkvæmt fréttinni ók hann aftan á Toyota Yaris á Reykjanesbrautinni með þeim afleiðingum að sá bíll endaði úti í Hvassahrauni. Mildi var að ekki fór verr. „Hann kann þó engar skýringar á því af hverju lögreglan vistaði hann í fangaklefa meðan á frumrannsókn málsins stóð,“ segir í fréttinni.

Ítrekaður hraðakstur

Í raun stangast frásögn Magnúsar af þessum atburði í smáu sem stóru á við heimildir blaðamannsins. Magnús segist hafa beðið viðkomandi konu sem ók bílnum sem hann ók á afsökunar en hún hafnar því í samtali við Atla Má, hann segir að lögreglan telji sig hafa verið á 116 km hraða á klukkustund og að bíllinn sé á verkstæði en ekki í vörslu lögreglunnar.

Vísir greindi svo frá því að hæstiréttur hafi staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Tesla-bíll Magnúsar, verði áfram í haldi yfirvalda. Magnús er grunaður um „stórfelldan og ítrekaðan hraðakstur“ á bílnum og að hafa valdið slysi á Reykjanesbrautinni. Þá hefur verið greint frá því að Magnús eigi tíu hraðakstursmál í kerfinu á Íslandi og eitt í Danmörku. Um hafi verið að ræða „gróf“ hraðakstursbrot og að sjö þeirra séu frá því í fyrra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×