Lífið

Uppeldisráð sem virka

Vera Einarsdóttir skrifar
Dr. Gyða Haraldsdóttir ásamt Lone Jensen uppeldisráðgjafa. Þær starfa báðar á Þroska- og hegðunarstöð.
Dr. Gyða Haraldsdóttir ásamt Lone Jensen uppeldisráðgjafa. Þær starfa báðar á Þroska- og hegðunarstöð. MYND/ERNIR
Uppeldishlutverkinu fylgir ábyrgð. Allir sem því sinna hafa gott af því að tileinka sér gagnreyndar uppeldisaðferðir í stað þess að renna blint í sjóinn. Gyða Haraldsdóttir féllst á að nefna nokkrar.

Foreldrar vilja börnum sínum allt hið besta. Það er þó ekki sjálfgefið að uppeldið gangi snurðulaust fyrir sig og margir geta þegið leiðsögn. Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar er námskeið þróað hjá Heilsugæslunni í Reykjavík. Það er kennt á Þroska- og hegðunarstöð og víðar um land og stendur öllum foreldrum barna að sex ára aldri til boða. Því er ætlað að gera þá hæfari og öruggari í uppeldinu og hjálpa þeim að fyrirbyggja erfiðleika.

Sálfræðingurinn Gyða Haraldsdóttir er höfundur námskeiðsins og hefur kennt það fjölmörgum, bæði foreldrum og fagfólki. Hún féllst á að fara stuttlega yfir helstu áherslupunkta.



Foreldrar eru helstu fyrirmyndir barna sinna

Eitt af grunnstefjum námskeiðsins er að foreldrar hafa mikil áhrif á hvernig einstaklingar börn þeirra verða. Þeir eru fyrirmyndir barna sinna um hvernig er rétt að haga sér. „Hegðun er ekki meðfædd heldur lærð og börn læra meðal annars með því að herma eftir öðrum. Þar sem foreldrarnir eru mikilvægasta fyrirmyndin þýðir það að þeir þurfa að vera meðvitaðir um hvað þeir gera og segja fyrir framan börnin. Þau fylgjast stöðugt með og hafa augu og eyru opin, jafnvel þótt ekki sé verið að tala við þau beint,“ segir Gyða.



Það þarf að kenna hegðun

Hún segir nauðsynlegt að kenna börnum þá hegðun sem foreldrar vilja að þau sýni. „Við getum ekki bara gert ráð fyrir því að hún komi sjálfkrafa. Við þurfum að ákveða hvað okkur þykir æskileg hegðun og kenna börnunum hana á markvissan hátt. Það er gert með því að sýna þeim hegðunina, gefa bein fyrirmæli og leyfa þeim svo að æfa sig. Svo þarf að hrósa þegar vel gengur, en líka fyrir að reyna.“



Að grípa börnin góð

Gyða segir foreldra þurfa að gæta þess að missa ekki af þegar börnin gera eitthvað gott og æskilegt. „Við tölum um að grípa börnin góð. Okkur hættir hins vegar til að hundsa æskilega hegðun en taka eftir þeirri óæskilegu og bregðast frekar við henni.“

Gyða segir það reynast mörgum erfitt að snúa þessu við því ef barnið er rólegt að dunda sér er freistandi að nota tækifærið og láta það eiga sig. „Þá erum við hins vegar að missa af mikilvægu tækifæri til að kenna barninu og ýta undir góða hegðun.“ Gyða á þó ekki við að foreldrar eigi stöðugt að trufla börnin sín við æskilega iðju. Það þarf aftur á móti að passa að vera til staðar og veita viðurkenningu þegar þau leita eftir henni með því að sýna athygli og hrósa.



Vinna saman og setja sér markmið

Að sögn Gyðu er lögð áhersla á að foreldrar líti á uppeldi sem krefjandi verkefni sem taki tíma og orku. „Við hvetjum foreldra til að tala saman um uppeldið og hvernig þeir vilji að því sé háttað, frekar en að láta hlutina bara ráðast en rjúka svo upp til handa og fóta þegar upp koma vandamál. Foreldrar sem vilja að börn þeirra verði sjálfsörugg, hafi góða félagsfærni, eigi vini og geti sinnt áhugamálum, svo dæmi séu nefnd, þurfa að setja sér markmið þar um og vinna að þeim jafnt og þétt.“



Að nota jákvæða umbun

Rannsóknir sýna að jákvæð umbun virkar mun betur á börn en skammir, tuð og refsing. Gyða mælir því með að foreldrar reyni eftir fremsta megni að styrkja jákvæða hegðun en hundsa neikvæða. „Vissa hegðun er þó ekki hægt að hundsa eins og þegar börn meiða eða rífa hluti af öðrum svo dæmi séu nefnd. Þá getur þurft að beita viðurlögum en ávallt skal reyna að hafa þau eins væg og kostur er. Viðurlögin geta verið að taka hlutinn í burtu eða fjarlægja barnið úr aðstæðunum,“ útskýrir Gyða. Ef foreldrar þurfa að beita viðurlögum mælir hún þó með því að þeir fái frekari leiðbeiningar.



Að gefa skýr skilaboð

Börn þurfa skýr skilaboð svo að þau skilji hvað fullorðna fólkið er að meina. Annars er ekki hægt að ætlast til að þau viti hvað þau eiga að gera. Foreldrar þurfa líka að vera samkvæmir sjálfum sér og banna ekki í dag það sem er leyfilegt á morgun, enda er það afar ruglingslegt. Í þessu samhengi skiptir líka miklu máli að foreldrar séu samstíga og hafi lagt línurnar sameiginlega.



Forðast að gefa fyrirmæli í spurnarformi

„Ef við viljum að barnið borði morgunmat er betra að segja: „Nú skaltu borða“ í staðinn fyrir „Ætlarðu ekki að fara að borða?“ Ef barnið á að fara í útiföt er sömuleiðis betra að segja: „Nú skaltu fara í skóna, úlpuna o.s.frv.“ í stað þess að spyrja: „Viltu ekki klæða þig?“ segir Gyða. Hún segir skilaboðin sem fyrr þurfa að vera skýr.

„Fyrirmæli ættu líka að vera í jákvæðu formi sem þýðir að við segjum börnunum hvað við viljum að þau geri, frekar en hvað þau eigi ekki að gera. Ef barnið fiktar í búð er betra að segja: „Nú skaltu passa hendurnar“ í stað þess að segja: „Ekki fikta.“ Ef það hleypur frá þér er betra að segja: „Nú skaltu ganga og leiða mig“ í stað þess að segja: „Ekki hlaupa“ og svo framvegis“.



Rútína veitir öryggi

Gyða leggur mikla áherslu á að foreldrar komi á rútínu og föstum venjum í hversdagslífinu. Það veiti börnum öryggi og spari óþarfa tuð og vesen. Hún segir þetta sérstaklega eiga við um morgna, matmáls- og háttatíma og að best sé að byggja upp rútínu á meðan barnið er ungt. „Þá er reynt að gera allt í sömu röð og á svipuðum tíma svo barnið gangi að ferlinu vísu.“



Skjánotkun og uppeldi fer illa saman

Gyða segir mikilvægt að foreldrar séu frá upphafi meðvitaðir um skjánotkun sína í návist barna. „Þetta er nútímavandamál sem verður sífellt fyrirferðarmeira.“ Að hennar mati ættu foreldrar eftir fremsta megni að láta það vera að nota skjái þegar þeir eru að sinna börnunum sínum. „Ef við erum upptekin í símanum eða tölvunni finna börnin að við erum ekki fullkomlega til staðar og hlustum ekki nógu vel. Of mikil skjánotkun barna er vaxandi vandamál og er mikilvægt að setja þeim mörk. Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir í þessum efnum eins og öðrum. Ef þeir eru sjálfir sífellt í símanum er líklegt að börnin geri eins.“

Gyða segir námskeiðið hafa gagnast foreldrum vel en það hefur verið kennt síðan 2004. Samkvæmt nýrri lýðheilsustefnu velferðarráðuneytisins á að auka útbreiðslu þess enn frekar á heilbrigðisstofnunum um allt land. Heilsugæslan býður að auki upp á sértæk námskeið fyrir foreldra og börn með ýmsan vanda.

Sjá nánar á heilsugaeslan.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×