Fótbolti

Dramatíkin á bak við tjöldin hjá Óla Kristjáns í Randers

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Kristjánsson gengur á milli liðsmanna Randers sem rifust eins og hundur og köttur í hálfleik í 2-0 tapi gegn Helsingör.
Ólafur Kristjánsson gengur á milli liðsmanna Randers sem rifust eins og hundur og köttur í hálfleik í 2-0 tapi gegn Helsingör.

„Stjórnin er að ræða um það hvort við getum haldið þessu áfram,“ segir Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Randers í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Ólafur lét orðin falla eftir enn eitt tap Randers í deildinni á dögunum en liðið hefur farið illa af stað það sem af er vertíð. 

Sjónvarpsmenn Canal 9 fengu að skyggnast á bak við tjöldin hjá danska félaginu og er óhætt að segja að útkoman sé afar athyglisverð. Allt er í hers höndum hjá liðinu sem hafði ekki unnið leik í deildinni í sjö tilraunum þegar Canal 9 mætti í heimsókn.

Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson ver mark Randers.

Ólafur ræðir um líf þjálfarans og hve erfitt og einmanalegt það sé þegar illa gengur. Þá standi þjálfarinn einn.

Fylgst er með Ólafi ræða við leikmenn sína inni í klefa, fyrir og eftir leiki, og sömuleiðis í einkaspjalli þegar ástandið er orðið svart. Miðvörður og framherji liðsins hnakkrífast inni í klefa í hálfleik í 2-0 tapi gegn Helsingör og serbneski framherjinn brotnar niður eftir klúður í tapleik og segist vera að bregðast liðinu sínu.

Í lok myndarinnar ræðir Ólafur á einlægan hátt við leikmenn sína og bendir þeim á að auðvelda lausnin sé sú að hann verði rekinn og þeir fái nýjan þjálfara sem þeir peppist upp við að sýna sig fyrir. Þetta snúist ekki um hann, verði hann rekinn þá taki hann því. Þetta snúist um karakter leikmanna sem þurfi að sýna úr hverju þeir eru gerðir, og hvernig þeir bregðist við mótlæti.

Randers mætti í næsta leik eftir landsleikjapásuna og landaði sínum fyrsta sigri í deildinni, 4-1 á útivelli gegn AGF.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira