Fótbolti

Launahæsti leikmaður heims kemst ekki í liðið vegna aukakílóa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í búningi kínverska liðsins.
Carlos Tevez í búningi kínverska liðsins. Vísir/Getty

Nýr þjalfari kínverska liðsins Shanghai Shenhua er ekki ánægður með líkamlegt form Argentínumannsins Carlos Tevez og segir hann of þungan til að komast í leikmannahópinn sinn.

Tevez er á himinháum launum hjá félaginu og er sagður launahæsti leikmaður heims. En hann hefur ekki náð að sýna sitt besta hjá liðinu og skorað aðeins tvö mörk í fimmtán leikjum með liðinu.

Wu Jingui tók við stjórastarfi félagsins af Gus Puyet fyrr í þessum mánuði og ætlar að taka málið engum vettlingatökum.

„Hann fær upplýsingar um leikfræði og uppstillingar en ég mun ekki velja hann í liðið eins og er. Hann er ekki tilbúinn til þess. Hann er ekki í standi til að spila,“ sagði Wu.

„Hann og [Freddy] Guarin eru báðir í yfirþyngd. Ég verð að taka ábyrgð á liðinu og leikmönnunum líka. Ef þú ert ófær um að standa þig eins vel og þú getur þá er tilgangslaust að velja þig.“

„Ég hef þjálfað margar stórar stjörnu og menn eru aldrei valdir í liðið á orðsporinu einu,“ sagði hann enn fremur.

Tevez er sagður fá 85 milljónir króna í vikulaun, jafnvirði 610 þúsund punda.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira