Erlent

Skaut heimilislausan mann sem bað hana um að færa Porsche-bíl sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Katie Quackenbush, einnig þekkt undir listamannsnafninu Katie Layne, var handtekin seint að kvöldi 26. ágúst síðastliðinn.
Katie Quackenbush, einnig þekkt undir listamannsnafninu Katie Layne, var handtekin seint að kvöldi 26. ágúst síðastliðinn.
Bandaríska söngkonan Katie Layne hefur verið ákærð vegna gruns um að hafa skotið heimilislausan mann í Nashville í Tennessee í síðasta mánuði.

Washington Post segir frá því að hin 26 ára Quackenbush, einnig þekkt undir listamannsnafninu Katie Layne, hafi verið handtekin seint að kvöldi 26. ágúst síðastliðinn fyrir að skjóta hinn 54 ára Gerald Melton nærri hverfinu Music Row þar sem mikið er um skrifstofur tónlistarútgefenda, útvarpsstöðva og hljóðvera.

Lögregla í Nashville segir að Melton hafi ætlað sér að fara að sofa um klukkan þrjú en að hávær tónlist og útblásturinn úr Porsche-bifreið Quackenbush hafi haldið fyrir honum vöku.

Melton hafi þá beðið Quackenbush um að færa bílinn og við það braust út mikið rifrildi sem lauk með að Quackenbush fór út úr bílnum og skaut Melton í magann í tvígang. Eftir það á hún að hafa flúið af vettvangi ásamt annarri konu.

Jesse Quackenbush, faðir Quackenbush, segist hafna útskýringum lögreglu og að dóttir sín hafi skotið að Melton í sjálfsvörn. Melton dvelur enn á sjúkrahúsi, alvarlega særður.

Í frétt Washington Post segir að Quackenbush hafi gefið út fjölda laga undir listamannsnafninu Katie Layne. Á YouTube lýsir hún sjálfri sér sem bandarískri blús og rokktónlistarkonu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×