Skoðun

Háskólanemar fá helmingi minna en á Norðurlöndunum

Ragna Sigurðardóttir skrifar

Í nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2017-2019 eru umhverfisbreytingar, fólksflutningar, lýðheilsa og hækkandi meðalaldur nefndar sem áskoranir sem bregðast þarf við í fyrirsjáanlegri framtíð. Eins og kemur fram í stefnunni gegna rannsóknir, nýsköpun og þátttaka í þekkingarsamfélaginu lykilhlutverki við að mæta þeim áskorunum, enda kalla nýjar áskoranir á nýjar lausnir. Nýjar lausnir verða í miklum mæli til í háskólum landsins þar sem lögð er áhersla á þverfaglegt samstarf, listir, hug- og félagsvísindi, hönnun, nýsköpun og rannsóknarstarf. Til þess að háskólar landsins geti haldið áfram að takast á við nýjar áskoranir og skapa lausnir verður þó að fjármagna þá með fullnægjandi hætti.



Stefna Vísinda- og tækniráðs, en ráðið er skipað fulltrúum ríkisstjórnarinnar, ráðuneyta, háskólanna og atvinnulífsins, felur í sér áætlun um 10 aðgerðir sem hafa það að markmiði að auka afköst rannsóknar- og nýsköpunarstarfs á Íslandi. Ein þessara aðgerða er því efling háskólastigsins. Það markmið er sett fram í stefnunni að meðaltali OECD í fjármögnun háskólakerfisins verði náð árið 2020 og meðaltali Norðurlandanna í fjármögnun háskólakerfisins verði náð árið 2025. Til að ná meðaltali Norðurlandanna á þessu tímabili þyrfti um 1,5 til 2 milljarða viðbót á hverju ári fram til ársins 2025 miðað við núverandi nemendafjölda.



Þessari viðbót er ekki gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisins til næstu 5 ára, og ekki heldur í fjárlögum ársins 2018. Í fjárlögum ársins 2018 er hins vegar gert ráð fyrir aukningu um 703,8 milljónir króna á föstu verðlagi fjárlaga 2017.



703,8 milljónir eru því alls ekki nóg ef ná á markmiðum um bætta fjármögnun háskólanna. Upphæðin er kærkomin innspýting í undirfjármagnað kerfi en hún uppfyllir ekki þau markmið sem Vísinda- og tækniráð hefur sett um að nálgast meðaltal Norðurlandanna í framlögum til háskólakerfisins. Nemendur í Danmörku fá 109% meira, nemendur í Noregi fá 104% meira, nemendur í Svíþjóð fá 91% meira og nemendur í Finnlandi fá 60% meira en nemendur á Íslandi ef miðað er við heildartekjur Háskóla Íslands á hvern ársnema í háskóla. Að meðaltali fá aðrir háskólar á Norðurlöndunum því um tvöfalt meira en háskólar á Íslandi miðað við nemendafjölda. Ljóst er að ef við bætum ekki fjármögnun háskólanna drögumst við ekki aðeins aftur úr í samanburði við nágrannalönd okkar, heldur glötum við tækifærum til þess að skapa nýjar lausnir við áskorunum sem steðja að samtímanum.



Stúdentaráð hefur því efnt til átaks sem birtist í strætóskýlum háskólasvæðisins, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum til að vekja athygli á fjármögnunarvanda háskólastigsins. Á næstu dögum munu birtast greinar eftir nemendur af hinum ýmsu sviðum háskólans sem lýsa þeirra sýn á vandanum.



Höfundur er formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×