Innlent

Réttað í Þverárrétt: Staðan fær ekki að skemma réttardaginn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bændur nýttu góða veðrið á réttardeginum til hins ýtrastra.
Bændur nýttu góða veðrið á réttardeginum til hins ýtrastra. vísir/eyþór
Réttað var í Þverárrétt í Borgarfirði mánudaginn 11. september síðastliðinn. Safnið kom af fjalli sunnudeginum áður og hófst dráttur þá í litlum mæli til að létta á safngirðingunni og vinnu daginn eftir. 

Í ár var, ef svo má að orði komast, réttað í skugga stöðunnar í greininni og tillagna landbúnaðarráðherra um að skera 20 prósent stofnsins niður. Bændur og aðrir fjárdráttarmenn létu það þó lönd og leið og nutu uppskeruhátíðarinnar. 

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Þverárrétt og tók myndirnar sem fylgja neðst í fréttinni.

„Þverárétt var lengi vel sú fjármesta á landinu, gott ef hún er það ekki ennþá,“ segir réttarstjórinn Grétar Reynisson á Höll. Um háls sér er Grétar með rauða flautu en blástur í hana gefur til kynna að rétt sé að bæta í almenninginn. Grétar tók við sem réttarstjóri af Davíð Aðalsteinssyni, á Arnbjargarlæk, en hann var áður þingmaður hins sáluga Vesturlandskjördæmis. Flautan leysti því háan róm Davíðs af hólmi.

„Ef maður telur vetrarfóðruðu hausana og margfaldar með 1,8, fyrir lambafjölda, þá má gera ráð fyrir að séu um 20 þúsund kindur hérna í dag. Það fer auðvitað ekki allt á fjall en þetta er nærri lagi,“ segir Grétar.

Réttarstjórinn hafði sjálfur farið upp á afrétt til að smala fénu. Safnið kom niður í fyrra fallinu á sunnudegi og var því strax byrjað að draga þá. Er það gert til að létta örlítið á safngirðingunni og minnka vinnuna daginn eftir. Byrjað var að rétta klukkan sjö á mánudagsmorgninum. Yfirleitt er búið að draga síðustu kindina í sinn dilk seinnipart dagsins.

„Viðbrögð manna við tillögum ráðherra eru nokkuð misjöfn en það er ekki komið mikið fram ennþá. Menn eiga eftir að sjá almennilega hvað felst í þessu. Það er kannski of snemmt að segja en mér sýnist menn vera nokkuð uggandi yfir þessu,“ segir réttarstjórinn.

„Við látum það samt ekki skemma fyrir okkur réttardaginn. Það er ekki hægt. Þetta er eitt af því sem þarf að halda áfram,“ segir Grétar. „Menn hafa lagt út mikinn kostnað fyrir þennan dag og það verður ekki aftur snúið úr þessu.“

Réttarstjórinn Grétar Reynisson (t.v.) og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, í réttinni.vísir/eyþór
Aðgerðirnar í vor og sumar skiluðu sér

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, býr á Bakkakoti í Stafholtstungum og er hans fé að finna í Þverárrétt. Líkt og Grétar var formaðurinn nýkominn úr leit.

„Það smalaðist ágætlega. Við lentum í talsverðri þoku á föstudeginum og fyrir vikið náðum við ekki að smala eins og við vildum,“ segir Sindri. „Það verður aðeins meira í annari leit af þeim sökum.“

Það hefur nokkuð mætt á Sindra undanfarnar vikur. Afurðastöðvar hafa skorið niður verð til bænda um allt að þriðjung og útlitið í greininni svart. Skömmu fyrir leitir og réttir bárust tillögur frá landbúnaðarráðherra sem miðuðu að því marki að fækka sauðfé í landinu um tuttugu prósent. Tillögurnar hafa farið mis vel í bændur.

„Ég held að það séu mjög skiptar skoðanir á tillögunum en flestir eru sammála um að hvatinn til að hætta búskap sé full mikill,“ segir Sindri. „Ég hef heyrt í nokkrum sem vildu frekar sjá hvata til að fækka fé tímabundið.“

Formaðurinn er þó bjartsýnn enda einnig jákvæðar fregnir borist á síðustu vikum. Kjötbirgðirnar hafi minnkað og aðgerðir sem gripið var til í sumar og vor hafa skilað sér í auknum útflutningi.

„Það er samt enginn að hugsa um þetta í dag. Lömbin eru falleg, sólin skín og það verður allt svo miklu auðveldara í svona veðri,“ segir Sindri.

„Þetta er bara djók“

„Það gekk nokkuð vel að smala fyrir utan þokuna á föstudeginum. Á tímabili sást ekki milli manna svo eðlilega verður eitthvað eftir. Það verður því drjúgt í annarri leit,“ segir Davíð Sigurðsson í Miðgarði. Davíð var fjallkóngur Tungnamanna í leitinni.

Davíð er öllu svartsýnari en þeir Grétar og Sindri. Hann á von á því að mikið brottfall verði úr stéttinni að ári liðnu. Menn hafi nú þegar heyjað fyrir komandi vetur og lagt í mikinn kostnað til að framleiða fyrir næsta ár. Áhrif tillagnanna komi í ljós næsta haust.

„Það er erfitt fyrir menn að hætta núna og staðan er flókin víða. Þú ákveður ekkert bara að hætta upp úr þurru,“ segir Davíð. „Við erum heppin hér í Borgarfirði að hér er næga atvinnu að hafa en víða er ástandið ekki þannig. Þú hleypur ekkert endilega í vinnu vestur á fjörðum eða á norðausturhorninu.“

Þegar Davíð horfir yfir almenninginn nefnir hann að lömbin komi mjög væn af fjalli þetta árið og afar lítið sé að litlum lömbum. Honum stekkur hins vegar ekki bros þegar honum er hugsað til þess hvað hann fær fyrir hvert þeirra.

„Staðan er grafalvarleg. Það sem við fáum fyrir skrokkinn í haust er svo langt undir kostnaðarverði,“ segir fjallkóngurinn. „Ég heyrði af bónda um daginn sem lagði inn 200 lömb með feikna góða meðalvigt, um átján kíló. Hann fékk 6.600 krónur fyrir hvert lamb. Ég meina, þetta er bara djók.“



Þetta er nú ekki drykkjurétt en ef þetta væri slík væri lítið mál að skila mér heim! segir Heidi kyrfilega merkt Örnólfsdal. Vinstra megin er fjallkóngurinn Davíð.vísir/eyþór
Mikill tími fór til spillist í sumar

Heidi Laubert Andersen er bóndi í Örnólfsdal í Þverárhlíð ásamt manni sínum, Agli Jóhanni Kristinssyni. Heidi fæddist í Danmörku en kom til Íslands árið 1998. Hingað flutti hún svo algerlega árið 2000.

„Ég fór ekki í leit. Það er sumarfríið hjá manninum mínum,“ segir Heidi og hlær. Hún var hin glaðasta með útlitið á fénu, lömbin væru væn og kindurnar kæmu í fínum holdum af fjalli. Aðspurð hvort hún óttaðist að féð væri of stórt og kæmi til með að seljast illa hló hún.

„Ekki í dag. Í dag ætla ég að leyfa mér að njóta þess að lömbin eru falleg, það er gott veður, sumarið var gott og heyfengur góður.“

Það er þó ekki svo að Heidi sé alkát með stöðu mála. Hún sér ýmsa vankanta á tillögum landbúnaðarráðherra. Þær feli í sér miklu meiri útgjöld fyrir ríkið en bændur hafi lagt upp með. Þá komi þær of seint fram og feli í sér að ungir bændur og eigendur stórbýla séu líklegastir til að færa sér þær í nyt.

„Mér þykir mjög sorglegt að allur þessi tími í sumar fór í mjög lítið. Það hefði verið kjörið að ræða þetta þá en það er svolítið seint að ætla að ræða saman þegar vertíðin er hafin hjá sauðfjárbændum,“ segir Heidi. „Það hefur enginn tíma til að ræða málin núna.“

Bóndinn telur að vandamálið liggi ekki í framleiðslunni heldur markaðnunum, markaðssetningunni og hve illa gengur að koma kjötinu á útlandamarkað. Hún bendir á að í vor hafi Kaupfélag Skagfirðinga, sem sér um að slátra fé hennar, boðað bændur á fund og látið vita af slæmri birgðastöðu og tilvonandi verðfalli. Á réttardegi hafi kjötfjallið hins vegar verið horfið.

„Það vantar hryggi, það vantar læri og reglulega þá vantar kjöt. Eftirspurnin getur sveiflast svo hratt en framleiðslunni sveiflar maður ekki svo auðveldlega dag frá degi,“ segir Heidi. „Ég held að það sé hættulegt að skera niður um fimmtung, þá gætu menn vaknað upp við vondan draum seinna meir.“

„Auðvitað er þessi staða þarna einhversstaðar en maður verður líka að leyfa sér að njóta afraksturs sauðburðarins. Í dag er gleðidagur,“ segir Heidi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×