Skoðun
Ingvar Gíslason, fv. þingmaður og ráðherra.

Sagan af Jeltsín og Pútín

Ingvar Gíslason skrifar

Svo segir í vísu nokkurri um tvo mektarmenn rússneska sem þóttu á sinn veg hvor:

Þegar Jeltsín kjassaði kútinn
og kyssti blautan stútinn,
box sér tamdi
og belgi lamdi
blendinn og edrú Pútín.

Þótt vísa þessi sé leirburður eins og flestar limrur sem ortar eru á Íslandi upp á síðkastið, má þó ljóst vera að vísnaskáldið leitast við að draga upp mynd tveggja þjóðarleiðtoga Rússlands eftir fall Sovétríkjanna, þ.e. Jeltsíns og Pútíns, og bera þá saman. Er þess þá að minnast að mannjöfnuður var uppistandara­list skemmtikrafta í baðstofum, að líkindum frá ómunatíð. Ekkert er nýtt undir sólinni. Í stöku þessari er vísað til alkunnra viðhorfa um drykkjuhneigð Rússa, að þeir séu almennt drykkfelldir, drekki vodka meira en góðu hófi gegnir. Þar liggur Jeltsín vel við höggi. En svo eru aðrir Rússar algáðir og eftir því útsmognir. Í þeim hópi er að finna valdamesta mann Rússlands um þessar mundir, sjálfan Pútín, sem Bogi Ágústsson sagði í eyru okkar útvarpshlustenda nýlega að völd hans jöfnuðust á við keisaravöld og er þá ekki að sökum að spurja. Rétt er nú að víkja nánar að þessum mannjöfnuði og hvert sé pólitískt sanngildi rússnesku drykkjuskaðamýtunnar. Kannski er eitthvað til í henni!

Hvort sem það er nú rétt að Jeltsín væri drukkinn alla daga meðan hann var og hét. Þá er þess að minnast hve mikils álits hann naut meðal evrópskra stjórnskörunga, hversu mikil ánægja þeirra var að eiga við hann samskipti, hversu vel þeir treystu honum. Fjölmiðlar drógu upp af honum þá mynd að hann væri hinn geðþekkasti náungi, allur uppá lýðræðið og bræðralagshugsjónina, veisluglaður, viðræðugóður. Og þar oní kaupið dugandi stjórnmálamaður! – Samt fór sem fór! Valdatíma Jeltsíns lauk.

Á hangandi hári
Þá var eins og brygði til hins verra um vináttu forystumanna Evrópusambandsins og Rússa. Fylli­ríið rann af ráðamönnum í Kreml, Pútín, boxari og langhlaupari, mætti algáður til vinnu hvern dag. Hann gerði ekki betur en að reka tungubroddinn í kampavín fyrir siðasakir, þegar hann hafði siðmenntaða Miðevrópumenn og Ameríkana til boðs og borðs. Slík manngerð af Rússa að vera var tortryggileg. Pólitísk og diplómatísk viðhorf snerust á hvolf. Ásýnd og ímynd þjóðarleiðtogans bar þess merki að Rússland var enn að eðli sovéskt og austrænt og ógnvaldur nýfrjálsum nágrannaþjóðum. Friðsamleg sambúð milli Rússlands og Evrópuríkja (og Bandaríkjanna) var á hangandi hári.

Nú kann vel að vera að Pútín Rússlandsforseti sé pólitískur bragðarefur, en margur heldur mann af sér. Eftir því sem best er vitað í nútíð og þátíð hefur orð legið á um pólitíska bragðarefi víðast hvar um veröldina og ýmsum hampað fyrir kænsku, sem raunar stóð saman af bellibrögðum, ósannindum og prettum. Oft má spurja þeirrar spurningar hver vilji frið og hver slíti friðinn. Er það víst að Rússar hafi einir slitið friðinn, þegar ófriður ríkir um lönd og álfur?

Sú kenning að Rússar séu að meginmenningu austræn þjóð er á misskilningi byggð. Látum forsöguna vera, svo óljós sem hún er. Þrátt fyrir það hafa Rússar um aldaraðir horft til vesturs um það sem betur mætti fara í hverju því sem lýtur að efnahagslegum framförum þeirra. Á síðari öldum hafa rússneskir rithöfundar og skáld, tónlistarmenn og myndlistarmenn lagt sinn hlut af mörkum til listmenningar í Evrópu og heimsins alls.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna að samskipti Rússa og Íslendinga hafa lengi verið góð og byggð á gagnkvæmum hagsmunum. Eltingaleikur íslenskra stjórnmálamanna við viðskiptahindranir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna hefur stórskaðað íslenskt efnahagslíf undan­farin ár auk þess sem slík þjónkun við heimsauðvaldið er pólitískt mál í meira lagi. Það er heimspólitískt glapræði að vestrænir ráðamenn skuli líta á Rússaveldi dagsins í dag sem sovéska eftirmynd og gera sig seka um söguheimsku af versta tagi. Að réttum skilningi skipta karlar á borð við Jeltsín og Pútín engu máli. Mín vegna má líta á þá sem drykkfellda belsebúba eða útsmogna hrekkjalóma, en slíkt má ekki koma í veg fyrir sambúð stórvelda.
 
Höfundur er fv. þingmaður og ráðherra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira