Skoðun

Stjórnarliðar, ábyrgðin er ykkar

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Það hefur um margt verið sérkennilegt að fylgjast með stjórnmálum, þessi misserin, hvað þá að taka þátt í þeim. Sumir virðast telja að hlutverk Alþingis, og okkar sem þar sitjum, sé fyrst og fremst að vera einhver afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn og agnúast jafnvel út í miklar umræður. Þetta er sérkennilegt viðhorf, því staðreyndin er sú að við þingmenn höfum mikið færi á að hafa áhrif. Það á enn frekar við um þingmenn stjórnarflokkanna.

Í gær hlýddum við á umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Ekki var annað á stjórnarliðum að skilja en hér væri nú bara allt frekar svona í lukkunnar velstandi, helst að þyrfti að laga eitthvað smávegis til hér og þar svo allt passaði betur í þann ramma sem stjórnarflokkarnir hafa reist utan um það samfélag sem þeir vilja sjá. En er það svo? Ég ætla að leyfa mér að svara þeirri spurningu neitandi.

Samfélagssýn stjórnmálaflokka og -fólks birtist best í fjárlögum, eins óspennandi og þau geta virst við fyrstu sýn. Fjárlög ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar bera það með sér að samneyslan er þessum flokkum ekki efst í huga. Hún mun enda dragast saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á kjörtímabili samkvæmt samþykktum stjórnarflokkanna.

Á meðan býr æ stærri hluti þjóðarinnar við kjör sem enginn ætti að þurfa að búa við. Aldraðir, öryrkjar, láglaunafólk; þetta eru ekki fjárlög þessara hópa. Menntakerfið sem allir vildu styrkja fyrir kosningar, að ég tali nú ekki um heilbrigðiskerfið; í fjárlögum birtist sveltistefna hægri stjórnarinnar glöggt.

Á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns er hver einasti öryrki sem ekki nær endum saman, eldri borgarar sem skrimta, fólk sem lifir á lúsarlaunum; það er á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns að áherslan er ekki lögð á þessa hópa. Og þannig er viðhaldið því ástandi sem lýðskrumarar nýta sér til að ala á útlendingaandúð undir merkjum þess að berjast gegn fátækt. Það er líka á ábyrgð hvers og eins stjórnarþingmanns.

 

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×