Fótbolti

Freyr: Reynir á liðið andlega eftir rússíbanann í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr segir færeyska liðið á uppleið.
Freyr segir færeyska liðið á uppleið. vísir/ernir
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir því færeyska í fyrsta leik sínum í undankeppni HM á mánudaginn.

En er þetta nýtt upphaf eftir vonbrigðin á EM í sumar?

„Nýtt upphaf, aðallega það,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson í samtali við Vísi fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.

Freyr segir að færeyska liðið sé á uppleið.

„Þær eru grjótharðar og það er mikil stemmning í kringum þær. En þær eru á eftir okkur varðandi á hvaða „standard“ þær hafa verið á síðustu ár. Þær eru mjög spenntar að koma hingað og spila við Ísland og mæta dýrvitlausar til leiks. Við þurfum að vera á tánum,“ sagði Freyr. En er eitthvað sem þarf að varast í leik Færeyja?

„Við þurfum að ná okkar besta leik og þá eiga úrslitin að detta með okkur. Við megum ekki láta þær slá okkur út af laginu með ákefð og látum. Þær spila stundum svolítið gróft og við þurfum að vera tilbúin í slagsmál.“

Íslandi gekk mjög vel gegn lakari liðum í undankeppni EM og vann alla þá leiki örugglega og án þess að fá á sig mark.

„Þetta hefur gengið vel en þetta er ekki sjálfsagt. Við þurftum að hafa fyrir því að ná þeim árangri. Það reynir á okkur andlega eftir rússíbanann í sumar. Við þurfum að mæta einbeitt til leiks og ná sigri,“ sagði Freyr sem kveðst ánægður með ástandið á íslenska hópnum.

„Það er mjög gott. Það er ekkert hnjask og kraftur í þeim. Æfingin í gær var frábær og það er sjaldan sem ég hef fengið þær svona ferskar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×