Innlent

Engu líkara en ríkisstjórnin sé á sjálfstýringu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Gunnarsson sagði forsætisráðherra eiga í verulegum vanda með að hafa stjórn á litlu samstarfsflokkunum
Sigurður Ingi Gunnarsson sagði forsætisráðherra eiga í verulegum vanda með að hafa stjórn á litlu samstarfsflokkunum Vísir/Ernir

Sigurður Ingi Jóhannson sagði í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að þó að staða efnahagsmála sé góð, sé ein mesta áskorunin í efnahagsmálum ókurvextir og óeðlilegar sveiflur í gengi.

„Ekki er hægt að segja að sú ríkisstjórn sem nú situr við völd sé líkleg til mikilla afreka. Stjórnarsáttmálinn er sem kunnugt er þunnur þrettándi - Lítið hefur til ríkisstjórnarinnar spurst í sumar, hún er lítt sýnileg og flýtur sofandi að feigðarósi á meðan málin stór og smá bíða afgreiðslu og úrlausnar.“

Sigurður Ingi sagði að árángur og horfur í efnahagsmálum séu svo sannarlega góðar en komi ekki að sjálfu sér. Sagði hann að framsókn meti stöðuna þannig að tækifærið sé núna til þess að efla grunnþjónustu og byggja upp.

Fyrri ríkisstjórn á mikinn þátt í árangrinum
„Árangur og horfur í efnahagmálum eru sannarlega góðar en koma ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samvinnu, samstöðu, markvissri vinnu og úthaldi og á fyrri ríkisstjórn mikinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur. Fyrirséð er að áfram verði vöxtur í þjóðarframleiðslu og því þarf að nýta tímann vel til að uppbyggingar, fyrir almenning, fyrir fólkið í landinu.“

Hann segir að heilbrigðisstofnanir og skólar þurfi öfluga uppbyggingarstefnu ekki stöðnun.

„Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma óháð búsetu og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks. Til að takast á við áskoranir framtíðarinnar er lykilatriði- að menntun sé fjölbreytt og ýtt sé undir nýsköpun þannig að okkar stærsta auðlind, - mannauðurinn fái að njóta sín.“

Byggja þurfi þekkingarbrú á milli skóla og atvinnulífs á öllum skólastigum.

Vilja uppstokkun á bankakerfinu
„Rannsaka þarf samspil hárra vaxta og gengis til að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur og fyrirbyggja skaðleg áhrif á útflutningsatvinnugreinar. Agi og samvinna þarf að ríkja á milli nýrrar peninga- og fjármálastefnu til að tryggja þann stöðugleika sem grunnur var lagður að í tíð síðustu ríkisstjórn.“

Sigurður Ingi sagði að framsóknarmenn vildu sjá uppstokkun á bankakerfinu.

„Bankakerfið á að þjónusta heimili og fyrirtæki. Hinn almenni neytandi þarf að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og aðhald sé gagnvart fjármálastofnunum. Margt hefur áunnist í að endurvekja traust, en þónokkuð er í land.“

Hann segist hafa fengið fátækleg svör þegar hann sendi forsætisráðherra fyrirspurn um eignasafn Seðlabankans.

„Með öðrum orðum, almenningur fær ekki að vita hverjir keyptu, á hversu mikið, né hvernig þær voru greiddar. Á sama tíma opna ráðuneytin bókhaldið. Er eðlilegt að Seðlabankinn geti skýlt sér á bak við bankaleynd þegar hann höndlar með eigur almennings?“

Ríkisstjórnin á sjálfstýringu
Sigurður Ingi sagði forsætisráðherra eiga í verulegum vanda með að hafa stjórn á litlu samstarfsflokkunum. Afleiðinguna telur hann óljósa stefnu og óljós skilaboð.

Hann sagði engu líkara en ríkisstjórnin sé á sjálfsstýringu og ekki komi á óvart að stuðningur við hana sé sögulega lítil.

„Stefnu- og ráðaleysið er algert og þegar tillögur eða aðgerðir koma fram þá er undir hælinn lagt hvar þær lenda. Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni. Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir breytingum til að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum og fjölga störfum með nýsköpun og menntun.“

Framsóknarflokkurinn telur að staðan sé víða góð og mikil tækifæri í að hér haldi áfram skynsamlegur vöxtur.

„Hins vegar þarf aðra stjórnarstefnu. Við höfum efni á því að búa betur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira