Innlent

Hæsta viðbúnaðarstig á Keflavíkurflugvelli: Eldur um borð í flugvél

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Hæsta viðbúnaðarstig er á Keflavíkurflugvelli
Hæsta viðbúnaðarstig er á Keflavíkurflugvelli Vísir/Anton Brink
Uppfært klukkan 20:10:

Gunnar Sigurðsson hjá Isavia segir að flugvél Wizz Air hafi lent á Keflavíkurflugvelli um klukkan 19:50 í kvöld. Allir hafi verið heilir um borð og vélin lent heilu og höldnu á vellinum en eldur kom upp í salerni vélarinnar skömmu eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli. 147 farþegar voru um borð.

Ekki var þörf á slökkviþjónustu um borð og búið er að afboða viðbúnaðarstigið á flugvellinum sem var það hæsta. Vélin verður keyrð upp að flugstöð og verður affermd. 

Aðspurður kveðst Gunnar ekki vita um eldsupptök né hvert farið verði með farþegana en þeir eru á ábyrgð flugfélagsins.

Flugvélin var á leið til Wrocklaw í Póllandi.

Tilkynning frá Landhelgisgæslunni vegna málsins:

Mikill viðbúnaður var settur í gang þegar eldur kom upp í Airbus-þotu flugfélagsins Wizz Air nú á áttunda tímanum. 147 voru um borð í þotunni. Tilkynning um eldinn barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan hálfátta en þá var þotan skammt suður af Mýrdalsjökli. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og fór önnur þeirra í loftið.

Hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli, liðsauki frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sendur á vettvang og björgunarsveitir settar í viðbragðsstöðu. Þotan lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli klukkan 19:51.


Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×