Innlent

Hæsta viðbúnaðarstig á Keflavíkurflugvelli: Eldur um borð í flugvél

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Hæsta viðbúnaðarstig er á Keflavíkurflugvelli
Hæsta viðbúnaðarstig er á Keflavíkurflugvelli Vísir/Anton Brink

Uppfært klukkan 20:10:

Gunnar Sigurðsson hjá Isavia segir að flugvél Wizz Air hafi lent á Keflavíkurflugvelli um klukkan 19:50 í kvöld. Allir hafi verið heilir um borð og vélin lent heilu og höldnu á vellinum en eldur kom upp í salerni vélarinnar skömmu eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli. 147 farþegar voru um borð.

Ekki var þörf á slökkviþjónustu um borð og búið er að afboða viðbúnaðarstigið á flugvellinum sem var það hæsta. Vélin verður keyrð upp að flugstöð og verður affermd. 

Aðspurður kveðst Gunnar ekki vita um eldsupptök né hvert farið verði með farþegana en þeir eru á ábyrgð flugfélagsins.

Flugvélin var á leið til Wrocklaw í Póllandi.

Tilkynning frá Landhelgisgæslunni vegna málsins:

Mikill viðbúnaður var settur í gang þegar eldur kom upp í Airbus-þotu flugfélagsins Wizz Air nú á áttunda tímanum. 147 voru um borð í þotunni. Tilkynning um eldinn barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan hálfátta en þá var þotan skammt suður af Mýrdalsjökli. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og fór önnur þeirra í loftið.

Hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli, liðsauki frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sendur á vettvang og björgunarsveitir settar í viðbragðsstöðu. Þotan lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli klukkan 19:51.


Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira