Handbolti

Sænsku meistararnir með fullt hús stiga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Freyr skoraði þrjú mörk fyrir Kristianstad.
Arnar Freyr skoraði þrjú mörk fyrir Kristianstad. vísir/epa
Fjölmargir íslenskir handboltamenn voru á ferðinni með sínum liðum í Evrópu í kvöld.

Kristianstad er áfram með fullt hús stiga í sænsku úrvalsdeildinni eftir sex marka sigur á Helsingborg, 30-24, á heimavelli.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir sænsku meistarana og Gunnar Steinn Jónsson tvö. Ólafur Guðmundsson var ekki á meðal markaskorara.

Team Tvis Holstebro er aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina í dönsku úrvalsdeildinni. Holstebro tapaði 27-31 fyrir SönderjyskE í kvöld. Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Holstebro en Egill Magnússon var ekki á meðal markaskorara.

Tandri Már Konráðsson komst ekki á blað þegar Skjern vann fjögurra marka sigur á Mors-Thy, 30-26, á heimavelli. Skjern er á toppi dönsku deildarinnar með fjögur stig.

Ásgeir Örn Hallgrímsson var ekki á meðal markaskorara þegar Nimes vann stórsigur á Tremblay, 30-21, í 1. umferð frönsku úrvalsdeildarinnar.

Geir Guðmundsson skoraði eitt mark fyrir Cesson-Rennes sem tapaði með minnsta mun, 29-30, fyrir Saran á útivelli. Guðmundur Hólmar Helgason komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×