Innlent

Talið að kviknað hafi í rafsígarettu um borð

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Flugvél Wizz air á Keflavíkurflugvelli nú í kvöld
Flugvél Wizz air á Keflavíkurflugvelli nú í kvöld Vísir/Víkurfréttir

Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um eld um borð í Airbus flugvél Wizz air um klukkan 19:40 í kvöld. Vélinni sem var á leið frá Keflavíkurflugvelli var snúið við og neyðarstig var boðað og aðgerðarstjórn kom strax saman í stjórnstöð. Vélin lenti heilu og höldnu kl. 19:49 á Keflavíkurflugvelli samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Lögregla og fulltrúar frá Rannsóknarnefnd flugslysa komu strax á vettvang. Svo virðist sem kviknað hafi í rafsígarettu um borð í vélinni og hún hafi verið sett í salernið án þess að neinn hafi verið látinn vita.

Sérþjálfað áfallateymi
Rauði Krossinn sendi áfallateymi á sínum vegum á vettvang og farþegar eru nú komnir inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samkvæmt tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi eru sjálfboðaliðarnir komnir í flugstöðina til þess að veita farþegunum sálrænan stuðning.

Sjálfboðaliðarnir sem koma bæði af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eru í neyðarvarnarteymum sem eru sérþjálfuð til að koma að verkefnum sem þessum og veita sálrænan stuðning.

Rannsókn er hafin á tildrögum atviksins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira