Innlent

Sér fyrir sér að heilu landshlutarnir verði eitt sveitarfélag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, sér fyrir sér að heilu landshlutarnir verði sameinaðir í eitt sveitarfélag. Þetta kom fram í ræðu hans í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi fyrr í kvöld.

Ráðherrann lagði út frá því í ræðu sinni að hér á landi væru sveitarfélög meira en 70 talsins.

„Sum eru agnarsmá, jafnvel með tugi íbúa, en þau hafa sömu skyldur og höfuðborgin með tæplega 125 þúsund manns. Við hljótum að sjá miklu stærri heildir og verðum að sjá miklu stærri heildir. Ég sé fyrir mér að Austurland, Vestfirðir og Suðurnes verði sterk sveitarfélög þar sem horft verði á hagsmuni allra íbúa við stjórnun,“ sagði Benedikt.

Þá ræddi hann um framtíðina, tæknina og kreppuna.

„Tæknin er undirstaða framfara og upplýsingar eru grunnur að skynsamlegri ákvarðanatöku. En hvernig gat það gerst á tækniöld, þegar við höfðum tölvur með meiri reiknigetu en nokkru sinni fyrr og ítarlegri upplýsingar en nokkru sinni áður, að snjallasta fólk heims kom okkur í verri kreppu en við höfum kynnst frá seinni heimstyrjöldinni?“

Þá sagði Benedikt að við værum að keppast við að koma í veg fyrir annað hrun en að næsta bankakreppa yrði ekki eins og sú síðasta.

„Tæknin getur hjálpað okkur, en hún getur líka steypt okkur í glötun. Veikleikinn verður alltaf mannlegi þátturinn þar sem freistingar eru margar og ágirnd þeirra sem eiga eiga meira en nóg er oft gengdarlaus. Hér megum við í þessum sal ekki sofna á verðinum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×