Innlent

Ekki víst að flensa verði jafn skæð hér og í Ástralíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Fréttablaðið/valli
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Fréttablaðið/valli
„Það er í raun ekkert hægt að segja fyrr en inflúensa byrjar um hvort hún verði verri hér en í fyrra. Þótt hún hafi verið verri í Ástralíu er ekki hægt að segja að það verði eins á norðurhveli jarðar,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Heilbrigðisstofnun Bretlands (NHS) hefur varað við því að sjúkrahús þurfi nú að búa sig undir skæðan inflúensufaraldur. Frá þessu greindu breskir miðlar í gær.

Inflúensa hefur verið skæð í vetur í Ástralíu, á meðan sumar var hjá okkur, einkum meðal barna og aldraðra. Þá greinir Daily Mail frá því að heilbrigðisyfirvöld hafi áhyggjur af því að bóluefnið passi illa við inflúensufaraldur ársins. Þar af leiðandi hafi faraldurinn nú verið einn sá versti í manna minnum í Ástralíu.

Þórólfur segir þó orðum aukið að tala um hrikalegan faraldur í Ástralíu þótt hann hafi verið verri en oft áður. Þá segir hann erfitt að segja til um hvernig faraldurinn verði á Íslandi.

„Enn sem komið er eru þetta getgátur að mínu mati. Það breytir því þó ekki að við þurfum að undirbúa okkur undir að inflúensan gæti orðið skæð. Við gerum það með því að hvetja fólk með undirliggjandi áhættuþætti til að fara í bólusetningu. Hún er það eina sem við höfum til að fyrirbyggja inflúensuna,“ segir Þórólfur og bendir á að bóluefnið sé misgott á milli ára enda breytist inflúensan.

Þá segir Þórólfur að keypt verði meira bóluefni í ár en áður, eða 65.000 skammtar samanborið við 60.000 í fyrra. Aukin ásókn hafi leitt til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×