Innlent

Magnús kærði starfsmenn héraðssaksóknara fyrir upplýsingaleka til DV

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon. Vísir/eyþór

Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon, kærði starfsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum og starfsmenn hjá Embætti héraðssaksóknara fyrir upplýsingaleka til DV.

Ríkissaksóknari hefur málið til rannsóknar og aðstoðar lögreglan á Vesturlandi við hana. Þetta kemur fram í skriflegu svari ríkissaksóknara við fyrirspurn Vísis.

Lögreglan á Vesturlandi yfirheyrði í dag blaðamanninn Atla Má Gylfason sem skrifaði frétt í DV í mars síðastliðnum um það að Magnús væri grunaður um að hafa valdið árekstri á Reykjanesbraut í desember 2016 með vítaverðum akstri.

Þá voru Kristjón Kormákur Guðjónsson, þáverandi ritstjóri DV og núverandi ritstjóri DV.is, og Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, einnig yfirheyrð hjá lögreglu í dag.

Telur Magnús að Atli Már hafi óeðlilegan aðgang að upplýsingum við vinnslu fréttarinnar um árekstur Tesla-bifreiðarinnar en í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld segir Atli að hann hafi hvorki fengið upplýsingar hjá héraðssaksóknara né lögreglunni á Suðurnesjum. Þá muni hann aldrei gefa upp heimildarmenn sína.

Athygli vekur að starfsmenn héraðssaksóknara eru til rannsóknar en á mánudag kærði stjórn United Silicon Magnús til Embættis héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot  og skjalafals. Magnús hefur í yfirlýsingum til fjölmiðla sagt ásakanirnar rangar og tilhæfulausar.

Magnús var fyrr á árinu ákærður fyrir ofsaaksturinn á Teslunni í desember. Var hann ákærður fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi en maður slasaðist í árekstrinum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira