Innlent

Segir eina úlfinn í sauðagæru vera Tómas sjálfan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kristinn H. Gunnarsson hefur bæst í hóp þeirra fyrrverandi þingmanna sem hugsa Tómasi Guðbjartssyni þegjandi þörfina.
Kristinn H. Gunnarsson hefur bæst í hóp þeirra fyrrverandi þingmanna sem hugsa Tómasi Guðbjartssyni þegjandi þörfina.
Fyrrverandi Alþingismaðurinn Kristinn H. Gunnarsson segir hjartalækninn Tómas Guðbjartsson fara með staðlausa stafi og dylgjur í umfjöllun sinni um virkjunaráform í Hvalá í Árneshreppi.

Tilefni pillunnar eru skrif Tómasar og Ólafs Más Björnssonar í Fréttablaðið þann 30. ágúst síðastliðinn. Í greininni Fossar til framtíðar í stað Hvalárvirkjunnar lýsa þeir áformunum sem úlfi í sauðagæru og segja þeir að „breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu.“

Í grein í Fréttablaðinu í dag segir Kristinn þennan málflutning vera „á lágu plani“ enda sé þarna „dylgjað um óheiðarleika og undirmál.“ Til þess að skýringar Tómasar og Ólafs væru sannar hefði þurft „samsæri“ fjölmargra aðila að mati Kristins. Segir hann öll gögn um Hvalárvirkjun og Rammáætlun hafa verið opinber frá upphafi.

„Enginn sem kemur að málinu tekur undir ásakanir og dylgjur Tómasar. Það var enginn blekktur. Engu var laumað í gegn. Eini úlfurinn í sauðargæru sem orðið hefur vart við er Tómas Guðbjartsson sjálfur. Tímabært er að hann komi undan gærunni og skýri hvað honum gengur til,“ segir Kristinn í greininni sem lesa má með því að smella hér.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skrif Tómasar hafa mætt andstöðu fyrrverandi þingmanna. Þannig greindi Vísir frá því í sumar að Sjálfstæðismenn væru komnir með upp í kok af Tómasi og öðrum náttúruverndarsinnum.


Tengdar fréttir

Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum

Undanfarið hefur fyrirhuguð Hvalárvirkjun á Ströndum verið mikið til umræðu, ekki síst eftir að við Ólafur Már Björnsson augnlæknir ákváðum að birta myndir á Facebook af fossum sem verða undir verði virkjunin að veruleika. Átakið köllum við #fossadagatal á Ströndum undir formerkjum #LifiNatturan, en við ráðgerum að birta myndir af einum fossi á dag í 30 daga.

Fossar til framtíðar í stað Hvalárvirkjunar

Nýlega ferðuðumst við undirritaðir fótgangandi með allt á bakinu um fyrirhugað virkjanasvæði Hvalár á Ströndum. Við skoðuðum virkjanasvæðið í heild sinni og gengum eftir þremur helstu vatnsföllunum endilöngum; Rjúkanda, Hvalá og Eyvindar­fjarðará. Í þessum ám eru hundruð fossa og mörg tilkomumikil gljúfur.

Tómas á lágu plani

Undanfarnar vikur hefur Tómas Guðbjartsson, stundum við annan mann, beitt sér í ræðu og riti gegn virkjun Hvalár í Árneshreppi. Málflutningur hans hefur verið á lágu plani. Hann hefur farið með dylgjur og staðlausa stafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×