Menning

Við þekkjum verk hvor annars og ákváðum að taka þennan slag

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Nafnarnir Jón Óskar og Georg Óskar fóru í nokkurs konar óvissuferð og máluðu 16 verk saman.
Nafnarnir Jón Óskar og Georg Óskar fóru í nokkurs konar óvissuferð og máluðu 16 verk saman. Vísir/Eyþór
Myndlistarmennirnir Jón Óskar og Georg Óskar opna sýningu í Tveimur hröfnum listhúsi, Baldursgötu 12, á morgun, föstudag, milli klukkan 17 og 19. Allar myndirnar eru eftir þá báða. Skyldu þeir vera frændur? Nei, þeir segjast ekki einu sinni þekkjast mikið persónulega.



„En við þekkjum verk hvor annars og ákváðum að taka þennan slag. Vorum með sextán ramma sem við skiptum á milli okkar, hvor byrjaði á sínum helmingi, svo skiptum við og héldum áfram með verk hins, svo skiptum við aftur. Þetta var bara óvissuferð sem við fórum í,“ segir Jón Óskar.

„Myndirnar eru náttúrlega ekki eins og maður mundi gera sjálfur,“ heldur Jón Óskar áfram. „Það verða óvæntir faktorar þegar aðrir koma að verkinu en það er líka það sem gerir verkefnið skemmtilegt, að fá eitthvað í hendur sem er gjörólíkt því sem maður hefði ætlað.“

Finnst honum þá ekki Georg Óskar vera að eyðileggja fyrir honum? „Nei, ég hef fylgst með Georg í nokkur ár, hann er flinkur málari. Við þóttumst vita hvað við værum að fara út í.“

Jón Óskar segir þá nafna ekki vinna að svipaðri list. „Við erum reyndar báðir málarar og teiknarar en ég vinn út frá litum og formum meðan hann er afgerandi í frásögn. En það blandast bara fínt hjá okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×