Innlent

Sveinn Gestur neitar sök

Birgir Olgeirsson skrifar
Sveinn Gestur Tryggvason neitaði sök við þingfestingu í máli embættis héraðssaksóknara gegn honum. Þá hafnaði Sveinn Gestur einnig bótakröfu í málinu. Við þingfestinguna sagðist Sveinn Gestur „að sjálfsögðu“ neita sök og hafna bótakröfu.

Sveinn Gestur er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás þegar ráðist var á Arnar Jónsson Aspar á Æsustöðum í Mosfellsbæ þann 7. júní síðastliðinn með þeim afleiðingum að Arnar beið bana. Sex voru handteknir í upphafi en Sveinn Gestur var sá eini sem var ákærður. Getur brotið sem hann er sakaður um varðað allt að sextán ára fangelsi.

Barnsmóðir Arnars hefur krafist fimmtíu milljóna í skaðabætur fyrir sig og dóttur sína úr hendi Sveins Gests. Við þingfestinguna í morgun gerði réttargæslumaður bótakrefjenda kröfu um að Sveinn Gestur víki þegar bótakrefjendur gefa skýrslu fyrir dómi, en verjandi mótmælti þeirri kröfu.

Sveinn Gestur hefur alfarið neitað sök í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum í ágúst síðastliðnum en þar var því haldið fram að Sveinn Gestur hefði aldrei veist að hinum látna heldur hafi hann verið að verjast árás.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að andlát Arnars sé rakið til nokkurra samverkandi þátta en „en þvinguð frambeygð staða sem brotaþola hafi verið haldið í, með hendur fyrir aftan bak, meðan kærði hafi þrýst með líkama sínum á brjósthol brotaþola og hálstakið sem kærði hafi haldið brotaþola í, samkvæmt framburði vitna, sé talið hafa leitt til mikillar minnkunar á öndunargetu sem að lokum hafi leitt til köfnunar brotaþola.“

Við þingfestinguna í morgun sagði Sveinn að ekki hefði verið um stórfellda líkamsárás að ræða. Hann hafi haldið höndum Arnars fyrir aftan bak en ekki á þann veg sem lýst er í ákæru. Sagðist hann hafa setið á rasskinnunum til að beita ekki þrýstingi á bakið og að annar maður hefði slegið Arnar sem er ekki ákærður.

Þá hefur komið fram að samkvæmt krufningskýrslu réttarmeinafræðings sé einnig talið að svokallað æsingsóráðsheilkenni hafi dregið Arnar til dauða, en um afar sjaldgæft heilkenni er að ræða.


Tengdar fréttir

Æsingsóráðið banvæna

Afar sjaldgæft er að æsingsóráðsheilkenni valdi dauða í kjölfar átaka milli tveggja óbreyttra borgara, segir réttarmeinafræðingurinn Sebastian Kunz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×