Enski boltinn

Mané bjóst aðeins við gulu spjaldi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sitt sýnist hverjum um hvort Sadio Mané hafi verðskuldað rautt spjald.
Sitt sýnist hverjum um hvort Sadio Mané hafi verðskuldað rautt spjald. Vísir/Getty
Sadio Mané, leikmaður Liverpool, bjóst aðeins við því að fá gult spjald eftir viðskipti sín við Ederson, markmann Manchester City, í leik liðanna um síðustu helgi.

Mané fór eins og frægt er orðið of hátt með löppina á móti Ederson er þeir voru í kapphlaupi um hver myndi ná fyrst til boltans. Alls þurfti að sauma átta spor í andlitið á Ederson.

Liverpool áfrýjaði banni Mané án árangurs og missir hann því af næstu þremur leikjum Liverpool. Bannið gildir þó ekki í Meistaradeildinni og var hann í byrjunarliðinu í jafntefli Liverpool og Sevilla í Meistaradeildinni.

Eftir leik ræddi hann rauða spjaldið og bannið við Sky.

„Í hreinskilni sagt var ég að einbeita mér meira að markmanninum en spjaldinu. Þegar ég sá rauða spjaldið varð ég hissa vegna þess að ég bjóst aðeins við gulu spjaldi,“ sagði Mané.

Hann segir að það sé ekki auðvelt að þurfa að horfa á liðsfélaga sína úr stúkunni en hann þurfi þó bara að bíta í það súra epli.

„Ég verð bara að taka þessu og gleyma því. Ég var á eftir boltanum og ég ætlaði mér aldrei að meiða hann. Ég er alls ekki þannig leikmaður og ég vona að hann (Ederson) nái sér fljótt,“ sagði Mané.

Meiðsli Ederson virðast þó ekki vera alvarleg en hann var mættur aftur á milli stanganna í auðveldum sigri Manchester City á Feyenoord í Meistaradeildinni í gær.

Hér að neðan má sjá Messuna taka fyrir rauða spjaldið umdeilda.


Tengdar fréttir

Tíu leikmenn Liverpool flengdir á Etihad

Liverpool fékk stóran skell í 0-5 tapi gegn Manchester City á Etihad-vellinum í dag en eftir rautt spjald á Sadio Mane undir lok fyrri hálfleiksins var greinilegt í hvað stefndi og keyrðu heimamenn yfir þá rauðklæddu.

Sjáðu áverka Ederson | Mynd

Markmaður Manchester City, Ederson, skartar vígalegu sári á andliti eftir samstuð hans og Sadio Mane, leikmanns Liverpool, í leik liðanna um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×