Erlent

Trump segir ekkert samkomulag hafa náðst

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að ekkert samkomulag hafi náðst á milli hans og demókrata varðandi áframhaldandi tilvist DACA-áætlunarinnar svokölluðu. Þau Nanci Pelosi og Chuck Schumer, leiðtogar minnihlutanna í fulltrúadeildinni og öldungaráðinu, sögðu í gærkvöldi að þau hefðu samið við forsetann um DACA og um að ekkert yrði af byggingu veggsins umdeilda á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Hvíta húsið hefur sagt að þessi atriði hefðu verið rædd á fundinum í gær, en ekkert samkomulag hefði náðst.

Sjá einnig: Kvöldverðafundur í Hvíta húsinu skilaði samkomulagi

Í röð tísta sagði Trump í morgun að ekkert samkomulag hefði náðst varðandi DACA. Þá væri þegar byrjað að byggja vegginn með tilliti til þess að staðið er að umbótum á þeim veggjum og girðingum sem þegar eru til staðar á landamærunum.Forsetinn tísti einnig um DACA og spurði hvort nokkur vildi í alvörunni reka „gott, mentað og afkastamikið ungt fólk sem er í vinnu, sumir þjóna í hernum? Í alvörunni!“

Trump sagði umrætt ungt fólk hafa verið í Bandaríkjunum um margra ára skeið og þau hefðu komið til landins með foreldrum sínum þegar þau voru ung.

Um 800.000 manns hafa fengið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum til tveggja ára í senn samkvæmt DACA-áætluninni sem Barack Obama kom til framkvæmda með forsetatilskipun árið 2012.

Tístin enda svo á orðunum; „Plús UMFANGSMIKIÐ landamæraeftirlit“, eins og til hafi staðið að bæta við þau. Næsta tíst forsetans sem birtist um hálftíma síðar fjallar þó um að hann sé á leið til Flórída.Bandamenn Donald Trump í Repúblikanaflokknum brugðust reiðir við fregnum um samkomulag forsetans og demókrata í gær. Þingmenn flokksins spáðu meðal annars því að dyggustu stuðningsmenn Trump myndu snúast gegn honum ef fregnirnar reyndust réttar, samkvæmt frétt Washington Post.

Þá lýstu repúblikanar yfir furðu sinni á því að Trump ætlaði að snúa baki við sínum stærstu kosningaloforðum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira