Umfjöllun,viðtöl og einkunnir: KA - Valur 1-1 | KA tók stig á móti toppliði Vals

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vísir/Anton
Íslandsmeistaraefni Vals sóttu eitt stig til Akureyrar í dag þegar þeir heimsóttu KA-menn á Akureyrarvöll í nítjándu umferð Pepsi-deildar karla að viðstöddum 670 áhorfendum.

Fyrri hálfleikur var markalaus en KA-menn fengu besta færi fyrri hálfleiksins eftir rúmlega 20 mínútna leik þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson lék á tvo varnarmenn Vals áður en hann skaut í þann þriðja og þaðan framhjá markinu. Þetta færi reyndist gestunum dýrkeypt því í atgangnum inn á teignum meiddist Haukur Páll Sigurðsson og varð hann að fara af velli skömmu síðar.

Síðari hálfleikur byrjaði kröftuglega því Elfar Árni Aðalsteinsson kom heimamönnum yfir á 47.mínútu þegar hann skallaði góða fyrirgjöf Hallgríms framhjá Antoni Ara Einarssyni.

KA-menn efldust enn frekar við markið og voru í tvígang nálægt því að tvöfalda forystuna. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Valsmenn jöfnuðu metin eftir rúmlega klukkustundar leik.

Mark Valsmanna skoraði Guðjón Pétur Lýðsson af vítapunktinum en vítaspyrna var dæmd á Guðmann Þórisson sem braut á Nicolas Bögild. Eftir jöfnunarmark Valsmanna var leikurinn í jafnvægi og hvorugt liðið í raun nálægt því að stela sigrinum

Afhverju varð jafntefli?

Í leikslok virkuðu bæði lið nokkuð sátt við niðurstöðuna sem útskýrir kannski jafnteflið. KA-menn voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins og hefðu í raun átt að gera út um leikinn á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks. Það tókst hinsvegar ekki og erfitt að ætla að halda hreinu gegn langbesta liði landsins.

Bestu menn vallarins

Enginn á vellinum var í einhverjum sérflokki að þessu sinni en eins og stundum áður var Hallgrímur Mar Steingrímsson maðurinn á bak við nær allar sóknaraðgerðir heimamanna og voru þær þónokkrar þó þeim hafi aðeins tekist að skora eitt mark. Elfar Árni Aðalsteinsson tók færið sitt vel og er að spila vel um þessar mundir. Þá var Darko Bulatovic mjög góður í vinstri bakverðinum hjá KA, jafnt sóknarlega sem varnarlega.

Anton Ari átti eina lykilvörslu í leiknum þegar hann varði frábærlega frá Steinþóri Frey. Þar hélt hann sínum mönnum inn í leiknum. Eiður Aron Sigurbjörnsson átti sömuleiðis góðan leik í vörn gestanna.

Hvað gekk illa?

Flestir sem hafa fylgst með Pepsi-deildinni í sumar eru sammála um að Valur er alla jafna best spilandi knattspyrnulið landsins. Því var alls ekki að heilsa í dag því Valsmönnum gekk virkilega illa að spila boltanum á milli sín og skapa sér marktækifæri.

Hvað er næst

Valsmenn geta farið að undirbúa sigurhátíð á Hlíðarenda næstkomandi sunnudag. Takist þeim að sigra Fjölni þar er Íslandsmeistaratitillinn þeirra eftir tíu ára bið. Staða KA-manna er frekar skrýtin. Þegar þrjár umferðir eru eftir eru þeir í fimmta sæti deildarinnar en aðeins fimm stigum frá fallsæti. Þeir heimsækja Vesturbæjarstórveldið KR á sunnudag og geta komið sér nálægt topp fjórum með sigri þar.

Ólafur Jóhannesson.Vísir/Eyþór


Óli Jó: Með ólíkindum að Akureyri eigi ekki alvöru knattspyrnuvöll


Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var nokkuð sáttur með að ná í eitt stig til Akureyrar.

„Ég er mjög ánægður að fá þetta stig. Við ætluðum okkur náttúrulega að vinna leikinn og við reyndum það en ég virði það að halda stiginu sem við höfðum þegar við komum hingað og ég er ánægður með það.”

Hann segir sitt lið hafa átt erfitt með að spila boltanum og furðar sig á vallarmálum á Akureyri.

„Ég var þokkalega ánægður með frammistöðuna hjá mínu liði. Við áttum í basli með að spila boltanum og vorum í veseni. ”

„Völlurinn er skelfilegur og ég held að Akureyrarbær ætti að skoða sinn gang í þeim málum. Þessi völlur er ósléttari en vondur malarvegur og það er með ólíkindum að þetta stóra bæjarfélag skuli ekki eiga alvöru knattspyrnuvöll,” segir Ólafur.

Valsmenn geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn næstkomandi sunnudag þegar þeir fá Fjölnismenn í heimsókn á Hlíðarenda og segir Ólafur að undirbúningur fyrir þann leik sé þegar hafinn en ljóst er að mikil vinna er framundan við að ná mönnum heilum því meiðsli eru að hrjá nokkra lykilmenn Vals.

„Staða okkar er fín, við erum með einu stigi meira en fyrir leik og við erum sáttir við það. Nú þurfum við að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Við erum með frábært sjúkrateymi og ég held að við verðum allir hressir á sunnudaginn,” segir Ólafur.

Vísir/Eyþór


Túfa: Við áttum skilið að vinna leikinn


Það voru blendnar tilfinningar sem bærðust innra með Srdjan Tufegdzic, þjálfara KA-manna að leik loknum.

„Ég virði hvert einasta stig og sérstaklega gegn besta liðinu á landinu en miðað við hvernig leikurinn þróaðist fannst mér við eiga skilið að vinna þennan leik.”

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna og er stoltur af strákunum. Ég sagði við þá fyrir leikinn að ef þú vilt vinna stórlið þá verður þú að fara inn í leikinn með það hugarfar að ætla að vinna. Við gerðum það sannarlega og áttum svör við öllu sem þeir gerðu. Við fengum dauðafæri til að afgreiða leikinn en fáum svo mark á okkur í fyrsta skipti sem þeir komast í hættulegt færi,” segir Túfa.

Óhætt er að segja að jöfnunarmark Valsmanna hafi komið þvert gegn gangi leiksins en hvernig varð Túfa við þegar hann sá Sigurð Óla benda á vítapunktinn?

„Ég var rosalega vonsvikinn. Það var ekkert í spilunum að þeir væru að fara að gera eitthvað og mér fannst við hafa fulla stjórn á leiknum, ” segir Túfa sem gat ómögulega sagt til um hvort vítaspyrnudómurinn hafi verið réttur.

„Ég verð að sjá þetta betur. Ég treysti Sigga (Sigurði Óla) og virði hann sem dómara en þetta var langt í burtu frá mér svo ég verð að sjá þetta betur.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira