Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - Grindavík 2-1 | Eyjamenn úr fallsæti

Einar Kristinn Helgason skrifar
Bikarmeistararnir eru loks komnir úr fallsætinu
Bikarmeistararnir eru loks komnir úr fallsætinu Vísir/Andri Marinó
ÍBV og Grindavík mættust í Pepsi-deild karla í kvöld þar sem Eyjamenn fóru með sigur af hólmi, lokastaða 2:1. Með sigrinum komst ÍBV upp úr fallsæti en bæði Fjölnir og Víkingur Ó, í sætunum fyrir neðan, eiga leiki til góða.

Shahab Zahedi Tabar hélt sæti sínu í byrjunarliði ÍBV í kvöld en hann þakkaði traustið með marki á fyrstu mínútu leiksins en markið var jafnframt hans fyrsta fyrir félagið síðan hann kom í félagsskiptaglugganum í sumar. Það var afar vindasamt í Vestmannaeyjum í dag og hafði það svo sannarlega áhrif á spilamennsku beggja liða sem komust oft og tíðum lítið áleiðis í sóknarleik sínum.

Það dró hins vegar til tíðinda á 33. mínútu leiksins en þá barst boltinn í fætur Shabab sem skilaði boltanum laglega í netið framhjá Kristijan Jajalo í markinu. Með vindinn í bakið nýttu leikmenn ÍBV færi sín vel en liðið lá meira til baka á meðan gestirnir sóttu.

Strax í upphafi síðari hálfleiks þjörmuðu leikmenn Grindavíkur að marki ÍBV sem stóðu pressuna af sér. Á 53. mínútu leiksins átti Sam Hewson gott skot sem Derby varði meistaralega með fætinum en skotið hefði hæglega getað endað með marki. Á 76. mínútu tókst Grindvíkingum loks að brjóta ísinn en þar var að verki markavélin Andri Rúnar Bjarnason, hans 16 mark í sumar.

Nær komust gestirnir ekki og mikil þrjú stig í hús hjá Eyjamönnum.

Af hverju vann ÍBV?

Það var ekki mikill munur á liðunum í dag en Eyjamenn nýttu meðvindinn betur í dag og náðu tveimur mikilvægum mörkum strax á fyrsta hálftímanum. Segja má að frábær markvarsla Derby hafi reynst afar mikilvæg í leiknum og reynst ígildi marks. Andri Rúnar náði þó að klóra í bakkan en það var of lítið og of seint.

Hverjir stóðu upp úr

Það er erfitt að taka einhvern sérstakan út fyrir sviga í þessum leik en Sahab skoraði tvö mörk í dag sem reyndist nóg til að taka stigin þrjú. Derby átti sömuleiðis fínan leik í marki Eyjamanna sem og David Atkinsson í vörninni. Í liði Grindavíkur stóð engin upp úr.

Hvað gekk illa?

Segja má að liðnum hafi gengið illa að ná upp spili í dag og skrifast það fyrst og fremst á vindinn. Grindvíkingum fengu mark á sig á fyrstu mínútu sem verður að teljast algjör martröð og hefur eflaust riðlað leikskipulagi liðsins.

Hvað gerist næst?

Hvíldin verður ekki löng fyrir liðin tvö því næsti leikur verður á sunnudaginn en þá mætir ÍBV FH á útivelli og Grindavík Breiðabliki á heimavelli.

Maður leiksins: Shahab Zaedi, ÍBV

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan.

Andri Rúnar Bjarnason er kominn með 16 mörkVísir/Stefán
Andri Rúnar: Við bara náum ekki að vinna fótboltaleiki

Andri Rúnar Bjarnason, framherji Grindvíkinga, var að vonum ósáttur með úrslit kvöldsins þegar blaðamaður ræddi við hann eftir leik.

„Þetta er alveg týpískt fyrir okkur seinni hluta móts og veit ég í raun ekki hvað gerist, við bara náum ekki að vinna fótboltaleiki.“

Vindurinn setti kannski smá strik í reikninginn fyrir ykkur í fyrri hálfleik þar sem þið fáið tvö mörk á ykkur, en þið ættuð svo sem ekkert að vera óvanir vindinum komandi frá Grindavík? „Nei alls ekki og við vorum að spila mjög vel á móti vindi, héldum boltanum vel milli okkar og vorum að spila hratt. Boltinn dettur tvisvar fyrir þá og þeir skora. Svona hefur þetta verið, við spilum vel en skorum ekki nóg og töpum leikjum.“

Aðspurður segir Andri niðurstöðuna hafa verið sanngjarna. „Já, þeir spila ekki illa og skoruðu fleiri mörk en við.“

Nú ert þú kominn með einhver 16 mörk í deildinni og nálgast markametið óðfluga, er það eitthvað sem þú ert að hugsa um? „Ekkert frekar en fyrri daginn, það er bara þarna. Nú hugsum við bara um næsta leik sem verður gegn Blikum á sunnudaginn.“

Kristján GuðmundssonVÍSIR/eyþór
Kristján Guðmundsson: Fyrst og fremst sáttur að vera kominn úr fallsæti

Eins og fyrr segir eru Eyjamenn ekki lengur í fallsæti og verða það ekki í það minnsta um stutta stund. Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var vitaskuld ánægður í leikslok þegar hann ræddi við Vísi. „Þetta gekk upp í dag já, okkur tókst að sigra. Þetta voru náttúrulega erfiðar aðstæður en við náðum að vinna vel úr þeim í fyrri hálfleik og stóðum vaktina mjög vel í seini hálfleik, mér fannst við yfirvegaðir og fyrst og fremst þeir sem áttu að hugsa um að verjast.“

Þið eruð komnir úr fallsæti eins og er, hvað telur þú að sé nóg svo þið sleppir við fall? „Það er mjög erfitt að segja, eins og komið er eru öll liðin í neðri hlutanum að fá stig en við erum ánægðir að vera komnir úr fallsæti. Ég held við verðum að vinna allavega einn leik í viðbót svo er bara spurning hvar við viljum enda. Fyrst og fremst er ég þó sáttur við að vera kominn úr fallsæti og við ætlum að vinna út frá því.“

Shahab kom óvænt inn í byrjunarlið ÍBV í leiknum gegn KR í síðustu umferð og skoraði svo tvö mörk í leiknum í dag. Samkvæmt Kristjáni hefur Íraninn sýnt góða takta á æfingum og átt fyllilega skilið sæti í byrjunarliði. „Hann er búinn að vera mjög öflugur á æfingum í allt sumar, skora mikið og hefur jafnvel átt skilið að koma fyrr inn í liðið. Hann er bara að koma úr svo gjörsamlega allt öðruvísi knattspyrnuheimi í Íran að það hefur tekið hann langan tíma að aðlgast því að spila 11 gegn 11. Hann leit kannski ekkert sérstaklega vel út fyrr í sumar en nú er hann farinn að skilja betur fótboltann hérna í Evrópu og þetta getur hann, hann afgreiðir boltan hrikalega vel.“

Á hann eftir að skipta sköpum fyrir ykkur í lok leiktíðar? „Hann skipti allavega sköpum í dag, við verðum bara að halda honum lifandi og í gangi og halda áfram að þjálfa hann og kenna honum,“ segir Kristján og bætir við að varnarleikur liðsins hafi sömuleiðis verið til fyrirmyndar. „Yfirvegunin í varnarleiknum skipti einnig mjög miklu máli í dag.“

Óli Stefán: Ótrúlegt hvað þetta fellur frá okkur þessa dagana

2:1 tap í dag, ertu ánægður með leik þinna manna? „Ég er náttúrulega alls ekki ánægður með að tapa en lungann úr þessum leik erum við góðir, spilum upp í góðar stöður, sköpuðum okkur mikið af færum og fáum á okkur fá færi. Ef maður tekur þennan leik í fljótheitum og reynir að greina hann þá er ég sáttur við hann. Það er bara ótrúlegt hvað þetta fellur frá okkur þessa dagana,“ sagði Óli Stefán.

Evrópusætið segir Óli Stefán jafnframt löngu farið. „Það er löngu farið og ég er ekki að spá í það. Við tökum bara leik fyrir leik og ég reyni að laga leik minna manna aftur og aftur og aftur og ná í úrslit, þetta snýst um það. Í dag spilaði ÍBV t.d. bara upp á úrslit, setja boltann vel upp og fara slagsmál með vindinn á móti okkur og skora tvö þannig mörk, svona langa bolta fram. Við áttum erfitt með þetta og það vantaði á augnablikum í dag að við myndum fara í þennan slag. Ef við gerum einhver mistök þessa dagana þá er okkur refsað.“

Bendir Óli Stefán jafnframt á að liðið byrji leiki sína ekki nógu vel. „Ég held að þetta hafi verið tíundi leikurinn í röð þar sem við lendum undir og það er mjög dapurt og eitthvað sem við verðum að vinna í til að taka skref fram á við. Við getum ekki alltaf verið að elta.“

Er hugarfari leikmanna um að kenna? „Nei nei, en auðvitað er þungt að sækja ekki úrslit og eftir því sem það líður lengra frá sigri þá leggst þetta pínulítið á mannskapinn. Þetta er góður og sterkur hópur, sterkur kjarni, við höfum verið lengi saman og farið í gegnum bæði góða og slæma tíma en það sem við þurfum fyrst og síðast að fókusa á er að þétta okkur aðeins og bæta örlítið upp á svo við getum farið að sækja úrslit.“

Sindri Snær Magnússonvísir/andri marinó
Sindri Snær: Þetta var ljótt en skilaði þremur stigum

Fyrirliði Eyjamann, Sindri Snær Magnússon, var glaður í bragði þegar blaðamaður náði tali af honum eftir leikinn í dag. „Við fengum þrjú stig og færðum okkur aðeins ofar í töflunni en það er það sem við þurftum,“ sagði Sindri sem var sammál því að fátt hefði verið um fína drætti. „Þetta var ljótt og mér fannst við ekkert frábærir en við börðumst og það er það sem skilaði þremur stigum í dag.“

Hvað telur þú liðið þurfa mörg stig til að sleppa við fall? „Hef ekki hugmynd, ég veit bara að við þurfum fleiri stig þannig við ætlum bara að reyna að sækja þrjú stig á sunnudaginn, það er það eina sem við getum gert, að halda áfram að safna stigum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira