Innlent

Víglínan snýr aftur á Stöð 2 og Vísi

Samúel Karl Ólason skrifar

Víglínan, þjóðmálaþáttur Stöðvar 2, snýr aftur til leiks að loknu sumarleyfi í hádeginu næst komandi laugardag. Þátturinn er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi og hefst klukkan 12:20. Þátturinn er að venju að mestu í umsjón Heimis Más Péturssonar fréttamanns á Stöð 2 en Höskuldur Kári Schram fréttamaður hleypur einnig í skarðið af og til.

Gestir Víglínunnar næsta laugardag verða Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. Heimir Már hlakkar til að taka þráðinn upp að nýju nú í upphafi þings.

„Það er spennandi vetur fram undan í stjórnmálunum og af nógu að taka í fyrsta þættinum þar sem fjárlög voru kynnt í vikunni og umræður fóru fram um stefnuræðu forsætisráðherra,“ segir Heimir Már.

Búast má við að hart verði tekist á um áherslur í fjárlagafrumvarpinu.

„Já eins og hljóðið hefur verið í stjórnarandstöðunni má reikna með því og þá eru sumir stjórnarliðar ekki hressir með allt í frumvarpinu. Þá eru kjarasamningar fjölmennra félaga opinberra starfsmanna lausir og flóknir kjarasamningar fram undan þannig að það mun ekki skorta á hitann í þjóðmálaumræðunni,“ segir Heimir Már.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira