Innlent

Vísar orðum forsætisráðherra til föðurhúsanna

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, undrast orð Bjarna Benediktssonar og segir launahækkanir tekjuhárra ríkisstarfsmanna setja nýjar kjaralínur.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, undrast orð Bjarna Benediktssonar og segir launahækkanir tekjuhárra ríkisstarfsmanna setja nýjar kjaralínur. vísir/vilhelm

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra talaði meðal annars um vinnumarkaðinn og komandi kjarasamninga í stefnuræðu sinni. Sagði hann gamalgróið sundurlyndi vera þjóðinni fjötur um fót og að vinnumarkaðslíkanið sé í raun ónýtt.

Hvatti Bjarni aðila til þess að sammælast um hve mikið laun geti hækkað svo stutt sé við efnahagslegan stöðugleika.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist undrast þessi ummæli forsætisráðherra. Að frá vorinu 2016 hafi Kjararáð úrskurðað um miklar launahækkanir ráðuneytisstjóra, svo alþingismanna, ráðherra og reglulega um launahækkanir forstöðumanna einstakra stofnana. Þessar launahækkanir séu ekki í samhengi við aðrar launahækkanir í landinu og langt umfram það sem almenningur fái að njóta.

„Þar sem forsætisráðherra og áður fjármálaráðherra, hefur staðfestlega neitað að taka á því máli þá verður að vísa þessum orðum hans til föðurhúsanna. Megin misklíð er vegna þess að þessi ríkisstjórn og sú síðasta hefur ekki viljað taka á þessu vandamáli," segir Gylfi.

Bjarni sagði einnig í ræðu sinni að menn keppist við að lýsa yfir andláti Salek-samkomulagsins og tala það niður.

Gylfi segir aftur á móti aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar vegna ákvarðana kjararáðs hafa mótað kjaralínu sem grafi undan Salek-samningalíkaninu.

„Þessi ríkisstjórn vill stuðla að því að tilteknir tekjuháir hópar fái miklu meiri launahækkanir en almenningur. Við höfum látið vita af því að ef þetta er viðhorf ríkisstjórn þá sé verið að efna til ófriðar á vinnumarkaði - því það verður engin sátt um þetta,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira