Fótbolti

Fótboltakonur taka þátt í eitt prósent herferðinni hans Juan Mata

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe og Alex Morgan hlusta á bandaríska þjóðsönginn.
Megan Rapinoe og Alex Morgan hlusta á bandaríska þjóðsönginn. Vísir/Getty

Bandarísku knattspyrnukonurnar og heimsmeistararnir Megan Rapinoe og Alex Morgan ætla að gefa eitt prósent launa sinna til góðgerðamála.

Spánverjinn Juan Mata hjá Manchester United hóf herferðina sína með því að tilkynna að eitt prósent launa hans færu til góðgerðasamtakanna Common Goal.

Þýski landsliðsmaðurinn Mats Hummels bættist í hópinn í ágúst en þær Megan Rapinoe og Alex Morgan eru fyrstu knattspyrnukonurnar sem taka þátt í þessu verkefni.

„Mér fannst mikilvægt að kvennafótboltinn ætti einnig sinn fulltrúa,“ sagði hin 32 ára gamla Megan Rapinoe en BBC segir frá.

Megan Rapinoe og Alex Morgan voru báðar í landsliði Bandaríkjanna sem varð Ólympíumeistari í London 2012 og heimsmeistari í Kanada 2015. Morgan vann einnig Meistaradeildina með Lyon í vor,.

Juan Mata tók þessa ákvörðun að koma slíku verkefni á laggirnar eftir að hann varð vitni af mikilli fátækt á ferð sinni í Mumbai í Indlandi.

Markmið hans er að setja saman ellefu manna lið af fótboltamönnum og konum sem gefa eitt prósent launa sinna til Common Goal góðgerðasamtakanna.

„Um leið og fleiri leikmenn bætast í hópinn þá vonumst við til þess að sýna heiminum að fótboltamenn eru með hjartað á réttum stað,“ sagði Mats Hummels.

Margir fótboltamenn eru með gríðarlegar tekjur og eitt prósent af launum þeirra getur því verið stór upphæð. Um leið og hópurinn stækkar þá gæti þetta verið fljótt að safnast saman.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira